Ráðgjöf fyrir fólk með litla formlega menntun – norræn tengslaráðstefna á Íslandi

14.11.2016

  • Hulda Anna Arnljótsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar í hópavinnu.

Norrænir aðilar í fullorðinsfræðslu funduðu þann 9. og 10. nóvember á Íslandi til þess að bera saman bækur sínar um hvernig hægt sé að vekja athygli fólks með litla formlega menntun á þeim tækifærum sem því bjóðast. #nordicguidance

Viðburðurinn skiptist í tvennt: 9. nóvember var haldin heils dags ráðstefna sem var öllum opin og 10. nóvember var síðan vinnudagur þar sem fólk vann að frekari útfærslu verkefnishugmynda. Þeir sem mættu á tengslaráðstefnuna voru að vonast eftir því að hitta aðra með svipaðar hugmyndir að samstarfsverkefnum á þessu sviði til að sækja í framhaldinu um styrk úr Erasmus+ menntaáætluninni. Skemmst er frá því að segja að afar fjölbreyttar hugmyndir komu fram á heilsdags ráðstefnu og fullum vinnudegi í framhaldinu og heldur vinnan áfram núna á fjölbreyttum sviðum.

Ráðstefnan þann 9. nóvember var haldin í samstarfi Rannís og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og var öllum opin og mættu alls um 90 manns, bæði þeir sem voru með hugmyndir að verkefnum og aðrir sem vildu fylgjast með því sem er að gerast í faginu. Prófessor Guðbjörg Vilhjálmsdóttir var ráðstefnustjóri og deildi með þátttakendum reynslu sinni af starfi sem náms- og starfsráðgjafi og sem kennari nær allra náms- og starfsráðgjafa á Íslandi. Peter Plant, prófessor emerítus frá Danmörku lagði áherslu á að náms- og starfsráðgjafar yrðu að standa upp úr stólunum og fara á vinnustaði fólks og ræða við það þar. Jaana Kettunen, háskólakennari frá Finnlandi kom hins vegar með áhugavert erindi um hvernig nota má tölvu- og upplýsingatækni til að koma upplýsingum til markhópsins.

Myndband með frásögn Dusönku Kotaras, sem kom til Íslands sem flóttamaður frá Króatíu árið 2003, vakti mikla athygli og ánægju. Dusanka hafði lært til kokks í heimalandi sínu en allir pappírar um það glötuðust í stríðinu. Hún fór í raunfærnimat og útskrifaðist sem matráður fyrir nokkrum árum og vinnur nú við að elda mat fyrir börn og starfsfólk Giljaskóla á Akureyri. Dóra Stefánsdóttir frá Rannís kynnti nýja hæfniáætlun ESB og Reeta Knuuti frá finnsku landskrifstofunni kynnti EPALE vefgáttina sem ætluð er fagfólki í fullorðinsfræðslu. Að loknum vinnustofum tók Guðbjörg saman helstu niðurstöður ráðstefnunnar og benti á að nauðsynlegt væri að þeir sem standa að fullorðinsfræðslu miðuðu þjónustu sína við þarfir og langanir markhópsins og hefðu við hann fullt samráð.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica