Opið samráð um Evrópskt menntasvæði 2025 og um stafrænt nám í breyttum heimi

13.8.2020

  • Openpublic
  • Openpublic_1597326896652

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur boðað til opins samráðs vegna tveggja aðgerðapakka sem nú eru í mótun og munu hafa mikil áhrif á nám og kennslu í Evrópu í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, þar með talið helstu áherslur í Erasmus+ á næstu árum. 

Annars vegar er um að ræða áframhaldandi samráð vegna Evrópsks menntasvæðis (e. European Education Area), sem stefnt er að árið 2025 og mun meðal annars einkennast af gæðum og bættu aðgengi að námi og auknu flæði nemenda og kennara milli Evrópulanda. Í samráðinu er nú sérstaklega horft til þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur á evrópsk menntakerfi. Hér er lögð áhersla á hlutverk menntunar og evrópsks samstarfs við að draga úr þeim áhrifum sem faraldurinn kann að hafa á efnahagslega og félagslega velferð borgara og við að byggja upp samfélag og hagkerfi sem einkennist af sjálfbærni og stafrænni færni. Samráðið er opið til 26. ágúst 2020 og er beðið um samfelldan texta sem nemur 4000 stafabilum að hámarki.

Hins vegar er verið að kalla eftir upplýsingum frá einstaklingum, stofnunum og samtökum um þá reynslu sem safnast hefur á síðustu mánuðum vegna heimsfaraldursins og áhrif hans á notkun stafrænna miðla við nám og þjálfun í Evrópu. Ljóst er að faraldurinn setti stórt strik í reikninginn hjá nemendum um heim allan – og gerir enn – og margir hafa nú þreytt frumraun sína við að læra með fjarnámi eða öðrum stafrænum lausnum vegna aðstæðna. Markmiðið með samráðinu er að draga lærdóm af þessu ferli og endurbæta aðgerðaráætlun Evrópusambandsins um stafrænt nám (e. Digital Education Action Plan) í takt við niðurstöðurnar. Samráðið er opið til 4. september 2020 og er þátttakendur eru beðnir um að svara sérstakri könnun.

Við hvetjum almenning, stofnanir og aðra hagsmunaaðila á sviði menntamála að leggja sitt af mörkum með því að taka þátt í samráðinu og eiga þannig þátt í að móta nám og kennslu í Evrópu.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica