Gæði í háskólastarfi í forgrunni á vel heppnuðu Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta

24.3.2017

  • Frá Landsþingi stúdenta 2017
    Landsþingsgestir ásamt Maríu og Sigurði

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) héldu dagana 17. - 19. mars Landsþing á Akureyri. Á þinginu áttu sæti fulltrúar allra háskóla á Íslandi, rúmlega 50 manns. Yfirskrift Landsþingsins var „Hvers virði er mín menntun? – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna.“

Sérfræðingar hjá Rannís, þau María Kristín Gylfadóttir og Sigurður Óli Sigurðsson hafa síðastliðin tvö ár unnið náið með samtökunum og stutt við uppbyggingu þeirra í tengslum við verkefnið Bologna Reform in Iceland (BORE).  María og Sigurður héldu erindi á þinginu um gæðastarf íslenskra háskóla í evrópsku tilliti og fyrirkomulag eftirlits með gæðastarfi þeirra, og stýrðu vinnustofum og hugarflugi um aðkomu stúdenta að gæðastarfi í íslenskum háskólum.  Í hugarfluginu komu meðal annars fram helstu áskoranir sem fylgja gæðastarfi, s.s. undirfjármögnun háskólakerfisins sem stúdentar telja mikla hindrun í eflingu gæða í háskólunum. Aðrar áskoranir sem þinggestir sammældust um voru skortur á upplýsingum og sýnileika árangurs gæðastarfs og hröð endurnýjun fulltrúa stúdenta ásamt tímaleysi til að taka þátt í gæðastarfi.  Niðurstöður hugarflugsins verða nýttar við mótun stefnu LÍS um gæði í íslensku háskólakerfi.

Í lok þingsins var Aldís Mjöll Geirsdóttir kosinn nýr formaður LÍS og nokkrar breytingar urðu einnig á stjórn samtakanna.  Um leið og við óskum Aldísi og stjórninni velfarnaðar í í áframhaldandi hagsmunagæslu fyrir íslenska stúdenta hlökkum við hjá Rannís til áframhaldandi samstarfs við samtökin.  

Nánari upplýsingar um þingið og nýja stjórn LÍS.

 

Frá Landsþingi stúdenta 2017Leitað að leiðum til að leysa áskoranir í gæðamálumFrá Landsþingi stúdenta 2017Hugarflugið tókst vel til – mikið spjallað og hlegið

Þetta vefsvæði byggir á Eplica