Verzlunarskóli Íslands hlaut á dögunum Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í kennslu fyrir verkefnið „Technology in Education and Every Day Life – The Path to Digital Citizenship. Verðlaunaafhendingin fór fram þann 14. nóvember á KEX Hostel og við sama tilefni voru veittar gæðaviðurkenningar eTwinning.
Mynd: Sendiherra ESB, fulltrúar Verzlunarskóla Íslands og forstöðumaður Rannís.
Forstöðumaður Rannís, Ágúst H. Ingþórsson, hélt opnunarávarp þar sem hann talaði m.a. um mikilvægi Evrópusamstarfs í menntamálum, um velgengni Íslands í evrópskum verkefnum og hversu miklu máli viðurkenningar skipta á þessu sviði. Hann gaf svo sendiherra ESB á Íslandi, Lucie Samcová-Hall Allen orðið en það kom í hennar hlut að veita Evrópuverðlaunin fyrir nýsköpun í kennslu.
Evrópuverðlaunin eru á vegum Erasmus+, samstarfsáætlunar Evrópusambandsins fyrir menntun, æskulýðsmál og íþróttir, og er ætlað að koma á framfæri ferskri og nýstárlegri nálgun á skólastarf.
Verðlaununum var hleypt af stokkunum árið 2021 og á fyrstu tveimur árum voru meira en 200 framúrskarandi Erasmus+ verkefni heiðruð með þessum virtu verðlaunum, þar af tvö frá Íslandi. Verðlaunin eru veitt í nánu samstarfi við landskrifstofur Erasmus+, en þær gegna lykilhlutverki við að finna og velja viðeigandi verkefni meðal leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og starfsmenntaskóla. Alls hljóta 93 verkefni frá 32 Evrópulöndum Evrópuverðlaunin fyrir nýsköpun í kennslu árið 2023.
Mynd: Sendiherra ESB á Íslandi, Lucie Samcová Hall- Allen
Á hverju ári snúast verðlaunin um ákveðið þema sem er í takt við áherslur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Á árinu 2023 er þemað „Menntun og nýsköpun“ með sérstakri áherslu á tækninýjungar, svo sem þjarkatækni (robotics), kóðun og forritun, gervigreind, sýndarveruleika og frumkvöðlastarf og hvernig hægt er að innleiða þessa þætti í skólanámskrár.
Einnig voru veittar gæðaviðurkenningar eTwinning fyrir vel unnin samstarfsverkefni og kom það í hlut forstöðukonu Landskrifstofu Erasmus+, Rúnu Vigdísar Guðmarsdóttur, og Jóhanns Páls Ástvaldssonar, verkefnastjóra eTwinning á Íslandi, að veita tólf kennurum þær.
Mynd: Forstöðukona Erasmus+, verkefnisstjóri eTwinning og handhafar viðurkenninga.
Auk þess voru viðurkenningar veittar til skóla sem hlotið hafa nafnbótina „eTwinning skóli“ fyrir vel unnin störf. Viðurkenningarnar eru hugsaðar til þess að umbuna kennurum fyrir vel heppnuð verkefni og auðvelda skólum að vekja athygli á árangri sínum. Þrír nýir skólar ganga í hóp fjórtán eTwinning skóla á landinu að þessu sinni.
eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að stofna til verkefna kennurum og nemendum í Evrópu. eTwinning býður einnig upp á starfsþróunarmöguleika með því að senda kennarar á ráðstefnur auk framboðs af netnámskeiðum.
Hver kennari eða skólastarfsmaður skráir sig sem einstaklingur og engin takmörk eru á því hve margir frá sama skóla geta verið með. Skráning er einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.