Í tilefni Evrópuárs um stafræna borgaravitund í menntun stóð Rannís fyrir ráðstefnu á Evrópudeginum 9. maí í Eddu. Hún bar yfirskriftina Evrópusamstarf í stafrænum heimi - Fræðsla til framtíðar og beindi sjónum að því hvernig formlegt og óformlegt nám getur hjálpað fólki að taka virkan þátt í stafrænu samfélagi.
Evrópuráðið tileinkaði árið 2025 stafrænni borgaravitund í menntun til að vekja athygli á mikilvægi þess að fólk fái fræðslu og stuðning til að taka upplýstan og ábyrgan þátt í stafrænu samfélagi. Aukin stafræn færni og lýðræðisleg þátttaka eru forgangsatriði í þeim evrópsku samstarfsáætlunum sem Rannís hefur umsjón með hér á landi á sviði mennta- og æskulýðsmála.
Stafræn umbreyting á að vera í þágu alls fólks og allir Evrópubúar eiga rétt á því að geta nýtt tækni sér til gagns í daglegu lífi á öruggan máta og í samræmi við borgaraleg réttindi. Því verður ekki náð án þess að formleg og óformleg menntun efli getu allra til að lifa, starfa og læra saman í stafrænum heimi.
Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs hjá Rannís
Ráðstefnunni var ætlað að fjalla um þau tækifæri sem Evrópusamstarf veitir á sviði stafrænnar borgaravitundar og fagna um leið merkilegum tímamótum þessara áætlana, en í ár fagnar eTwinning 20 ára afmæli sínu, EPALE er 10 ára, Europass er 20 ára og Eurodesk er 35 ára.
Líflegar pallborðsumræður fjölluðu um kennslu stafrænnar borgarvitundar, hvers vegna hún er svo aðkallandi og hvernig hún hefur verið innleidd á Íslandi. Þátttakendum bar saman um að stafræn færni stuðli að inngildingu og virkri þátttöku í samfélaginu og að engin megi sitja eftir í þeirri umbreytingu sem nú á sér stað. Evrópskt samstarf var sérstaklega dregið fram sem afl til friðar og samvinnu og þótti við hæfi að viðburðurinn ætti sér stað á Evrópudeginum 9. maí, en í ár eru 75 ár liðin frá því að Robert Schuman lagði grunninn að Evrópusambandinu með yfirlýsingu sinni um sameinaða Evrópu með frið og samstöðu að leiðarljósi.
Frá því að núverandi Erasmus+ áætlun hóf göngu sína árið 2021 hafa yfir 100 verkefni með íslenskri þátttöku hlotið styrk á sviði stafrænnar þróunar. Meirihluti þeirra sem sækja sér nám eða þjálfun erlendis á vegum áætlunarinnar segjast hafa eflt getu sína í notkun stafrænnar tækni meðan á dvölinni stóð. Þá er markmið eTwinning áætlunarinnar að tengja saman kennara og skóla í Evrópu til að vinna saman á stafrænum vettvangi að mikilvægum samfélagslegum viðfangsefnum, til að mynda lýðræði, sjálfbærni og gagnrýnni hugsun.
Ráðstefnan gaf gestum tækifæri til að skyggnast inn í framkvæmd nokkurra þessara verkefna og leit sérstaklega til frábærs árangurs Árskóla, Tækniskólans í Reykjavík, Stóru-Vogaskóla, leikskólans Læks, Verzlunarskóla Íslands, Víkurskóla, Þekkingarnets Þingeyinga og Ofbeldisforvarnarskólans á þessu sviði.
Lokaorð ráðstefnunnar voru í höndum sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Clöru Ganslandt, sem lýsti yfir ánægju með sóknarhuginn í íslensku mennta- og æskulýðssamfélagi gagnvart evrópsku samstarfi og styrkjum, eins og hún kynntist af eigin raun þegar hún ferðaðist um landið með Evrópurútu Rannís. Evrópubúar þurfa að virkja sköpunarkraftinn í sameiningu til að tryggja inngildingu, seiglu og stafræna umbreytingu álfunnar.
Nánari upplýsingar
eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum með hjálp upplýsingatækni.
Erasmus+ er samstarfsáætlun Evrópusambandsins fyrir menntun, þjálfun, æskulýðsmál og íþróttir. Áherslur hennar á stafræn málefni snúast að miklu leyti um aðgengi og að veita fólki jöfn tækifæri til að fóta sig í stafrænum heimi. Þá er henni ætlað að takast á við dvínandi lýðræðislega þátttöku og upplýsingaóreiðu með því að efla almenning til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi og láta í sér heyra.
Myndbönd um árangursrík Erasmus+ og eTwinning verkefni sem snúa að stafrænni færni
Nánari upplýsingar um Evrópusamstarf í stafrænum heimi veitir Eva Einarsdóttir, sérfræðingur í kynningarteymi Rannís (eva.einarsdottir@rannis.is, sími 515-5853).
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.