Óhætt er að segja að árið sem leið hafi fært Evrópusamstarfi miklar áskoranir. Mörg verkefni í Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) hafa þurft að breyta nálgun sinni á framkvæmdina eða frestað henni. Á þessum óvissutímum hefur Landskrifstofa fundið vel fyrir bjartsýni meðal styrkhafa á að alþjóðlegt samstarf muni blómstra að faraldrinum loknum og skipta sköpum við uppbyggingu samfélagsins.
Eftirspurn í Erasmus+ og ESC á árinu hefur endurspeglað þennan mikla drifkraft. Til viðbótar við úthlutun í náms- og þjálfunarstyrki í vor fór fram úthlutun til samstarfsverkefna í sumar, þar sem 3,6 milljónum evra var veitt til 21 verkefnis í menntahluta Erasmus+. Met voru slegin við þessa úthlutun, til að mynda í skólahlutanum, þar sem aldrei hafa jafn mörg verkefni fengið styrk til að efla samstarf skóla, starfsmanna þeirra og nemenda. Við sama tilefni var um 795 þúsund evrum úthlutað til 15 verkefna sem sóttu um í aðra umsóknalotu ESC og æskulýðshluta Erasmus+.
Í síðustu úthlutun ársins voru sérstakar Covid-umsóknir í forgrunni. Sá umsóknarflokkur var settur á laggirnar með sérstöku fjármagni til að efla stafræna væðingu í menntamálum annars vegar og til að styrkja tengsl milli skapandi greina, menntunar og æskulýðsmála hins vegar. Landskrifstofu bárust fjölbreyttar umsóknir um þessi mikilvægu málefni og styrkti níu Covid-verkefni í desember, auk 14 umsókna úr þriðju umsóknarlotu æskulýðshlutans, fimm umsókna um European Solidarity Corps og tveggja umsókna um samstarfsverkefni sem höfðu verið á biðlista.
Landskrifstofa minnir styrkhafa á leiðbeiningar varðandi Covid-19 og vísar einnig á nánari upplýsingar um úthlutanir ársins. Til að sýna hina miklu breidd í viðfangsefnum er hér birtur listi yfir styrkhafa í Erasmus+ samstarfsverkefnum ársins.
1. Titill verkefnis: Digital skills and competences of local communities in rural areas (Digital Communities)
Verkefnisstjóri: Þekkingarsetrið Nýheimar
Styrkur: € 194.030.- til 24 mánaða
Verkefnið snýr að því að efla tölvufærni eldri borgara í dreifðum byggðum. Gerð verður könnun um upplýsingar á netinu og aðgengi markhópsins að opinberum upplýsingum á tölvutæku formi verður aukið m.a. með aðstoð í sýndarveruleika (virtual assistance). Verkefnið er líklegt til að hafa veruleg áhrif á tölvufærni markhópsins.
2. Titill verkefnis: Peer support+
Verkefnisstjóri: Hugarafl
Styrkur: € 117.626.- til 24 mánaða
Notendamiðuð heilsusamtök í þremur löndum ætla að efla fullorðinsfræðslu þeirra sem hafa orðið fyrir erfiðri reynslu og þarfnast andlegs stuðnings. Unnið verður að þessu markmiði með jafningjastuðningi og jafningjafræðslu. Markhópur stendur höllum fæti (social inclusion) og verkefnið er sérsniðið að þörfum hópsins.
3. Titill verkefnis: Achieving Sustainability through INTRApreneurship (SINTRA)
Verkefnisstjóri: Símenntunarstöðin á Vesturlandi
Styrkur: € 250.122.- til 24 mánaða
Verkefnið miðar að því að bjóða stofnunum stuðning til að efla frumkvæði með sérsniðnum frumkvöðlavinnustofum. Markhópur er vítt skilgreindur, atvinnurekendur og starfsmenn.
Unnin verður opin vefgátt og úrræðapakki á netinu til að efla frumkvöðlastarf bæði starfsmanna og vinnuveitenda.
1. Titill verkefnis: Plastic Justice
Verkefnisstjóri: Listaháskóli Íslands
Styrkur: € 190.644 til 24 mánaða
Dómur gegn plasti er samstarfsverkefni sex listaháskóla í Evrópu auk samstarfsaðila í ríkisstjórnum og frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála. Tilgangur verkefnisins er að rannsaka hvernig grafísk hönnun og sjónrænar samskiptaleiðir geta varpað ljósi á alvarleika mengunar vegna örplasts í umhverfinu. Með því að stefna saman kennurum, sérfræðingum, aðgerðasinnum og stefnumótunaraðilum er markmiðið að skapa kennslugögn og aðferðir, samræður og hönnunarefni sem eykur umhverfisvitund og þekkingu um langtíma heilsuáhrif og áhættur sem fylgja örplastsvandamálinu.
2. Titill verkefnis: Leadership in Small States – LIST
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 187.012 til 24 mánaða
Markmið verkefnisins er leiðtogaþjálfun fyrir nemendur og unga fræðimenn, ásamt því að þróa opið netnámskeið á háskólastigi sem verður hýst á vefsvæði edX. Smáríki standa frammi fyrir kerfislægum hindrunum vegna smæðar sinnar, en til þess að yfirstíga þær hindranir þurfa smáríki öðrum fremur mikla leiðtogafærni.
3. Titill verkefnis: Projectification and Sustainable Governance of Projects
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 186.120 til 36 mánaða
Verkefninu er ætlað að skapa námskeið um sjálfbæra stjórnun verkefna í umhverfi aukinnar verkefnavæðingu. Námskeiðið verður þróað af þremur háskólum og tekur tillit til sérstöðu hvers samhengis. Ennfremur mun verkefnið einbeita sér að því að tengja saman fræðilegar rannsóknir á sjálfbærni í verkefnastjórnun og framkvæmd, með sérstakri áherslu á framtíð stofnunar.
4. Titill verkefnis: Strengthening parenting among refugees in Europe
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 251.164 til 24 mánaða
Verkefnið snýst um foreldraþjálfun meðal flóttafólks sem byggir á „The Oregon Model of Parent Management Training (PMTO)“.
5. Titill verkefnis: Teaching Institutional Resilience and Prompt Reaction to Crisis: Good Governance Experiences in Europe
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 262.520 til 24 mánaða
Um ræðir samstarfsverkefni háskóla í norður, suður og austur Evrópu sem miðar að öflun þekkingar á góðum stjórnarháttum á tímum áfalla og kalls um samfélagslega ábyrgð. Komið verður böndum yfir nýjar leiðir við miðlun þekkingarinnar, meðal annars með notkun tækni og fjarskipta.
6. Titill verkefnis: Training in Embodied Critical Thinking
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 210.576 til 36 mánaða
Markmið verkefnisins er að vinna markvissa, vandaða og hagnýta endurskoðun á hugtakinu gagnrýnin hugsun, sem yfirleitt er skilgreint sem rökvís og tæknileg hugsun. Það er gert með því að rýna í nýlegar kenningar og rannsóknir á því hvernig hið líkamlega (e. embodiment) hefur óhjákvæmileg áhrif á margbreytileika tilfinninga og upplifunar einstaklingsins, sem mótar hugsun hans og viðhorf. Markmið verkefnisins er þá að leggja til breytt viðhorf og nálgun á beitingu og eflingu gagnrýninnar hugsunar í ljósi þessa.
1. Titill verkefnis: Nurturing Intangible Cultural Heritage for Entrepreneurship – NICHE
Verkefnisstjóri: Þekkingarnet Þingeyinga
Styrkur: € 267.811.- til 2ja ára
Markmið verkefnisins er að að styðja við starf frumkvöðla tengdu óáþreifanlegum menningararfi og þróa nýtt fræðsluframboð um efnið. Markhópurinn er núverandi og tilvonandi fagfólk í greininni og er ætlunin að auka samkeppnishæfni og viðhalda vexti hennar.
2. Titill verkefnis: European Career Help and Occupational Orientation Play –
ECHOO PLAY
Verkefnisstjóri: Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Styrkur: € 298.312.- til 28 mánaða
Verkefnið fjallar um að kynna og kenna hvernig hægt sé að nýta leikjafræði (e. Gamification, Lego briggs), sköpun og ýmsa leiki í náms-, og starfsráðgjöf sem og kennslu. Rannsaka á áhrif þessara aðferða á nemendur og kennara og út frá því, búa til handbók sem hægt er að nota í starfsráðgjöf sem og við fræðslu. Þróaður verður leikur sem verður notaður til að gefa þátttakendum möguleika á að átta sig á starfsmöguleikum og finna leiðir að markmiðum sínum. Hluti af verkefninu er að birta fræðigrein og að mennta kennara til að nýta sér þessa aðferð með nemendum sínum.
3. Titill verkefnis: FIREFLY - The Digital Firefly Project. Digital strategies for sparking entrepreneurial learning
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 247.699.- til 24 mánaða
Í verkefninu verður fjallað um þær áskoranir sem kennarar standa frammi fyrir við fjarkennslu og hvernig tryggja megi góðan árangur rafrænna- og blandaðra kennsluhátta. Kennsla í frumkvöðlafræðum er meginþema verkefnisins og markhópurinn eru kennarar í framhaldsskólum.
4. Titill verkefnis: BEST-EDU - Lessons Learned during COVID: Transferability of Best Practice in European Education Project
Verkefnisstjóri: Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs
Styrkur: € 118.036.- til 24 mánaða
Markmið þessa verkefnis er að deila reynslu og þekkingu af rafrænum kennsluháttum. Safnað verður upplýsingum um árangursríkar aðferðir og áhersla lögð á kynningu þeirra. Einnig verða haldin námskeið og vinnustofur.
5. Titill verkefnis: Artificial intelligence for everybody – stronger with AI
Verkefnisstjóri: Skákgreind ehf
Styrkur: € 235.512.- til 24 mánaða
Það er mikil áskorun að halda nemendum áhugasömum, ekki síst í dag þar sem nám hefur færst yfir á netið. Verkefnið er þverfaglegt. Það spannar gervigreind, kennslu-, sál- og tölvunarfræði ásamt líkönum sem voru þróuð í tengslum við bæði samskipti manneskju og vélmenna og upplifunarstjórnun í tölvuleikjum. Beitt verður nýjustu tækni til að hjálpa nemendum að tengja við námið.
Vefsíða nýtir vefmyndavél til að fylgjast með upplifun og áhuga nemenda. Þróað verður líkan sem nýtir þær upplýsingar til að fylgjast með upplifuninni og líkanið nýtist til þess að sníða þjálfunina að þörfum hvers nemanda. Við viljum að nám sé skemmtileg og uppörvandi upplifun, sem er eftirsóknarvert að endurtaka.
Sjö samstarfsaðilar koma að verkefninu, sérfræðingar og skólar frá fjórum þjóðlöndum.
1. Titill verkefnis: Building Resilience and Brighter Futures
Verkefnisstjóri: Píeta Ísland
Styrkur: € 159.118 til 19 mánaða
Hér er um að ræða samstarf þriggja landa. Ísland og Litháen sækja þekkingu frá Írlandi sem hefur gefið góða raun. Viðfangsefnið er sjálfsskaði og sjálfsvíg ungs fólks og verður stuðst við hugmyndafræðina BUILD en hún vinnur að eflingu á seiglu, tilfinningastjórn og jákvæðni ungmenna. Áhersla verður lögð á aldurshópinn í 8. bekk. Skólar og frístundamiðstöðvar í Hafnarfjarðarbæ taka þátt í þessu verkefni.
2. Titill verkefnis: Social Entrepreneurship for Youth
Verkefnisstjóri: Einurð
Styrkur: € 189.792 til 24 mánaða
Aðaláherslan í þessu verkefni er að þróa vettvang, tæki og námskeið sem styðja við unga frumkvöðla í að stofna sitt eigið fyrirtæki sem byggir á samfélagslegri ábyrgð (social enterprise). Hér verður unnið með ungu fólki, starfsfólki í æskulýðsgeiranum, sjálfboðaliðum og fagfólki sem hefur sýnt áhuga á samfélagsþróun.
3. Titill verkefnis: Belonging to Nature: the Heart of Wellbeing
Verkefnisstjóri: Unglingasmiðjur Stígur og Tröð
Styrkur: € 214.757 til 20 mánaða
Markmið með þessu verkefni er að bæta hæfni æskulýðsstarfsfólks og þeirra sem vinna með ungu fólki. Ætlunin er að búa til handbók og þróa námskeið um það hvernig hægt er að nýta náttúruna sem stuðningstæki í æskulýðsstarfi og í verkefnum með ungu fólki. Endanlegt markmið samstarfslandanna er að bæta geðheilsu unga fólksins sem það vinnur með.
4. Titill verkefnis: 5C´s coaching education - For positive youth development
Verkefnisstjóri: Íþrótta- og ólympíusamband Íslands
Styrkur: € 187.297 til 31 mánað
Íþrótta- og ólympíusamband Íslands ásamt breskum samstarfsaðila hefur í hyggju að þjálfa íþróttaþjálfara eftir ákveðnu módeli sem Bretar hafa þróað og reynt og hefur gefið góða raun. Þetta módel heitir 5C og stendur það fyrir Commitment, Communication, Concentration, emotional Control og self Confidence. Félagslegi þátturinn í íþróttastarfi verður sérstaklega skoðaður í þessu ferli. Einnig er ætlunin að fá foreldra með í lið og kenna þeim að nýta sér þess þekkingu inni á heimilum ungra íþróttaiðkenda. Innlendir aðilar sem taka þátt í þessu verkefni eru UMFÍ, KSÍ, FSÍ og HR.
5. Titill verkefnis: Fatherhood
Verkefnisstjóri: Quasar
Styrkur: € 223.699 til 24 mánaða
Hér eru það fimm samstarfsaðilar í fjórum löndum sem vilja búa til þjálfunarprógramm fyrir unga feður. Hugmyndin er að koma til móts við þarfir ungra manna sem eru orðnir feður, þjálfa þá og valdefla í föðurhlutverkinu. Ætlunin er að búa til myndbönd og umhverfi á netinu þar sem ungir feður geta leitað upplýsinga og nálgast efni sem þeir geta nýtt sér í því ferli sem fylgir því að verða ungur faðir.
6. Titill verkefnis: Engaging Empowered European Youths
Verkefnisstjóri: Pakkhús Ungmennahús
Styrkur: € 238.849 til 24 mánaða
Aðalmarkmið þessa verkefnis er að byggja alþjóðlegt samfélag þeirra sem spila hlutverkaleiki (role-playing games). Ætlunin er að búa til umhverfi á netinu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar, viðburði, aðra spilara o.s.frv. Samstarfsaðilar vilja auðvelda aðgang fyrir byrjendur og byggja á sköpun í leik fyrir þau sem eru lengra komin. Hlutverkaleikir bjóða upp á ýmiskonar sköpun eins og t.d. að skrifa sína eigin sögu, búa til nærsamfélag, viðburði og setja það í stærra samhengi og deila með öðrum. Einnig er ætlunin að efla æskulýðsstarfsfólk í þessu ferli svo þau geti aðstoðað unga fólkið sem spilar hlutverkaleiki á þeirra heimasvæði.
1. Titill verkefnis: Once upon YOUR time: storytelling for preventing early school leaving
Verkefnisstjóri: Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð
Styrkur: € 167.270 til 24 mánaða
Stígur og Tröð taka höndum saman með erlendum stofnunum sem vinna með ungmennum eða að þróun námsefnis og ætla að auka getu og færni nemenda til að þróa og efla sjálfsmynd sína og koma í veg fyrir brottfall úr skóla. Áherslan er á 11-16 ára nemendur sem búa við skert tækifæri eða eiga á hættu félagslega útilokun. Afurðir verkefnisins verða niðurstöður rannsókna á starfsháttum og náms- og kennsluefni fyrir kennara og nemendur sem fyrirhugað er að miðla til skólasamfélagsins.
2. Titill verkefnis: DigitalDESTINY: Digitally Designing Education for Sustainable development Teaching INvolving Young children
Verkefnisstjóri: NORTH Consulting ehf.
Styrkur: € 235.325 til 24 mánaða
Verkefnið DDESTINY miðar að því að styðja kennara á yngstu stigum grunnskólans víðsvegar um Evrópu til að ná tökum á þeim áskorunum sem komið hafa upp í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins, sem og þeim markmiðum um sjálfbærni sem sett eru fram í þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, með því að efla hæfni í stafrænu læsi og hönnun menntunar svo kennarar geti boðið upp á árangursríka blandaða námsreynslu og notað hugsunarmiðaða menntun og sagnagerð sem kennslufræðilegt tæki.
3. Titill verkefnis: Breaking Walls with Flipped Classroom
Verkefnisstjóri: Hörðuvallaskóli
Styrkur: € 118.806 til 24 mánaða
Hörðuvallaskóli tekur hér höndum saman með fimm öðrum evrópskum skólum við að þróa aðferðir til þess að bæta stafræna hæfni kennara og auka gæði menntunar, sem hefur flust í miklum mæli yfir á netið í kjölfar þeirra lokana sem Covid-19 hafði í för með sér. Í því samhengi verður sérstaklega lagt upp úr því að öðlast meiri skilning á og þróa aðferðir í vendinámi (Flipped Learning).
4. Titill verkefnis: The Water Drop
Verkefnisstjóri: Kópavogsbær
Styrkur: € 213.871 til 24 mánaða
Hér er á ferð þverfaglegt mennta- og menningarverkefni þar sem saman koma sveitarfélög, skólar og söfn á Norðurlöndunum og í Eistlandi, m.a. Múmínsafnið í Finnlandi og H.C. Andersen safnið í Danmörku, sem hafa það að markmiði að nýta barnabókmenntir til þess að þróa nýja aðferðafræði við þátttöku barna í söfnum og fræðslustofnunum og um leið ýta undir eigin sköpun þeirra.
5. Titill verkefnis: Promoting Cultural diversity in primary and lower-secondary schools
Verkefnisstjóri: Háskóli Íslands
Styrkur: € 190.197 til 24 mánaða
Háskóli Íslands, ásamt fjórum öðrum evrópskum fræðslustofnunum, hyggst hér þróa fræðslutæki sem stuðla eiga að aukinni fjölbreytni í kennsluauðlindum í skólastofunni, sem og að auðga færni og sköpunargáfu allra nemenda, ekki síst þeirra sem eiga sér viðkvæman bakgrunn og eru líklegir til þess að dragast aftur úr vegna erfiðrar stöðu sinnar. Með því verður leitast við að stuðla að bættum samskiptum á milli hópa, veita tækifæri til ígrundunar og jafningjanáms og menningarlegrar sjálfsvitundar.
6. Titill verkefnis: Artists and Botanical gardens - Creating and Developing Educational innovation
Verkefnisstjóri: Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
Styrkur: € 259.690 til 24 mánaða
Í þessu verkefni munu skólar og stofnanir í fjórum löndum, ásamt þremur grasagörðum, taka höndum saman og leitast við að búa til nýstárlegt námsefni fyrir grunnskóla, sem stefnt er á að muni sameina sköpunargáfu og ítarlega greiningu á náttúruheiminum og veita kennurum tæki til að auka þátttöku og áhuga nemenda á náttúruvísindum og sjálfbærni í gegnum reynslunám.
7. Titill verkefnis: Climate Change and Biodiversity
Verkefnisstjóri: Grundaskóli
Styrkur: € 36.852 til 24 mánaða
Í þessu verkefni munu skólar í fimm löndum leiða saman hesta sína og skiptast á reynslu og aðferðum í kennslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á ólík lönd og landsvæði. Verkefnið miðar að því að efla þekkingu á málefnum tengdum loftslagsbreytingum og líffræðilegum fjölbreytileika, m.a. út frá vistfræði í borgum, varðveislu jarðvegs og mengun náttúrulegs umhverfis og búsvæða.
8. Titill verkefnis: Let´s eat Culture
Verkefnisstjóri: Menntaskólinn Tröllaskaga
Styrkur: € 36.478 til 24 mánaða
Um er að ræða fjölmenningarlegt verkefni fjögurra framhaldsskóla í jafnmörgum löndum sem öll hafa mismunandi matargerðarhefðir og sögu. Samstarfsskólarnir eru allir staðsettir í dreifbýli á Íslandi, Ítalíu, Portúgal og Spáni. Ríkin fjögur eiga ýmislegt sameiginlegt, s.s. að vera með strandlengju en sum eru líka með stærri landbúnaðarsvæði, sum eru með virkar eldstöðvar, önnur hafa átt nýlendur í Ameríku, hafa framleitt vín, ræktað nautgripi, kindur og geitur. Margt er ólíkt með þeim líka, s.s. mismunandi loftslag og aðbúnaður sem hefur áhrif á matargerðarhefðirnar. Þátttakendur munu uppgötva og kynnast mismunandi smekk og hefðum á milli landa og jafnframt leita leiða til að viðhalda eigin hefðum með sjálfbærni að leiðarljósi.
9. Titill verkefnis: Wonders of Water in Nature and Science
Verkefnisstjóri: Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri
Styrkur: € 19.520 til 19 mánaða
Aðalmarkmið þessa verkefnis er að hvetja börn á leik- og grunnskólaaldri til að vernda umhverfi sitt og vatnsauðlindir í þeim tilgangi að hjálpa Jörðinni og vistkerfi hennar að vera endurnýjanlegt og sjálfbært. Leitast verður við að auka við þekkingu þátttakenda á sem flestum sviðum í umhverfinu, náttúrufræði, heilsu og vellíðan og um leið að víkka út sjóndeildarhring kennara og læra nýjar aðferðir við kennslu.
10. Titill verkefnis: Let us Bring Europe Together for Heritage
Verkefnisstjóri: Víkurskóli
Styrkur: € 35.915 til 24 mánaða
Í þessu menningarverkefni munu skólar í fimm löndum sameinast um að kanna bæði náttúrulega og menningarlega arfleifð hvers lands, áhrif hennar á sjálfsmynd fólks og rannsaka hvernig arfleifð hvers og eins stuðlar að bæði félagslegri og efnahagslegri þróun þess svæðis sem hún er á. Leitast verður við að læra um þessar menningarlegu auðlindir hvers og eins og deila þeirri þekkingu með öðrum þátttakendum í verkefninu.
11. Titill verkefnis: Inclusion through sensory integration
Verkefnisstjóri: Leikskólinn Gefnarborg
Styrkur: € 38.040 til 24 mánaða
Markmið þessa verkefnis, sem fimm leikskólar víðsvegar að úr Evrópu taka þátt í, er að styðja við “nám án aðgreiningar” með því að þróa skilning og vinnubrögð kennara um hvernig hægt sé að kanna og þroska mismunandi skilningarvit allra barna og þannig undirbúa þau betur fyrir frekari og áframhaldandi hugræna vinnu í leikskólunum.
12. Titill verkefnis: Ready for the World
Verkefnisstjóri: Verkmenntaskólinn á Akureyri
Styrkur: € 61.312 til 24 mánaða
Þrír skólar munu leitast við að fjalla um hvernig aðstoða megi og styrkja fólk sem þarfnast hjálpar. Helsta verkefni nemenda og kennara þeirra er að skoða sitt eigið samfélag og kynna það fyrir gestum sínum, m.a. með það að leiðarljósi að koma auga á hópa fólks sem þurfa á aðstoð að halda og hvernig ná megi til þeirra til að veita hjálp. Hugtökin samkennd, samhygð og forréttindi verða skoðuð og nemendur læra hvernig aðstoða megi fólk án þess að því líði eins og lítið sé gert úr því. Að baki verkefninu liggur m.a. sú hugmynd að ef við viljum vinna að markmiðum um sjálfbæra þróun, sem gefin eru út af SÞ, verðum við að vinna saman.
13. Titill verkefnis: Equality
Verkefnisstjóri: Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins
Styrkur: € 35.036 til 24 mánaða
Markmið þessa fimm landa verkefnis er að læra meira um menningu og raunverulegar aðstæður í þátttökulöndunum í tengslum við skoðanir þeirra og reglugerðir um ýmis konar jafnrétti sem og eðli grundvallarréttinda Evrópusambandsins. Fjögur meginþemu verða skoðuð með jafnrétti að leiðarljósi; jafnrétti kynjanna, jöfnuð í tengslum við öryrkja og aldraða, jöfnuð í tengslum við kynvitund og kynhneigð og jöfnuð í tengslum við þjóðernislega og trúarlega minnihlutahópa.
14. Titill verkefnis: Tradition is a source of inspiration – from the region to Europe
Verkefnisstjóri: Leikskólinn Bjartahlíð
Styrkur: € 19.248 til 24 mánaða
Í þessu verkefni munu þátttökuskólarnir leitast við að skiptast á faglegri reynslu, auka tungumálakunnáttu þátttakenda og dýpka þekkingu á hefðum og menningu landanna sem um ræðir. Meðal markmiða verkefnisins er að auka þekkingu á notkun nýrrar tækni meðal starfsmanna leikskóla, vekja áhuga og þekkingu á hefðum og þjóðmenningu þátttökulandanna, auka færni starfsmanna sem vinna með fötluðum börnum og koma í veg fyrir kulnun starfsmanna með því að veita þeim tækifæri til að öðlast nýja reynslu og læra nýjar lausnir í starfi.
15. Titill verkefnis: Stronger Bonds to Improve School Quality
Verkefnisstjóri: Kvistaborg
Styrkur: € 24.220 til 24 mánaða
Í þessu verkefni tekur leikskólinn Kvistaborg saman höndum með starfsmenntunarmiðstöð í Frakklandi og skiptist á reynslu og vinnubrögðum, þ.e. kennarar beggja skóla heimsækja hitt landið í námsferðum og að auki munu kennaranemar í frönsku miðstöðinni koma til Íslands og öðlast reynslu af kennslu leikskólabarna.
16. Titill verkefnis: The Final Countdown
Verkefnisstjóri: Vatnsendaskóli
Styrkur: € 43.060 til 24 mánaða
Markmið þessa sex skóla verkefnis er að vekja þátttakendur til umhugsunar um loftslagsmál og finna leiðir til þess að halda Jörðinni sem blómlegri og grænni plánetu. Í því sambandi verður m.a. leitast við að auka vitund um loftslagsbreytingar, innleiða slíkar áherslur í menntun skólanna, efla og skiptast á reynslu og góðum starfsháttum, auka aðgang að upplýsingum og fræðslu um loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun og margt fleira.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.