Í byrjun ársins kom út rannsókn á gengi nemenda sem fá styrk úr Erasmus+ fyrir starfsþjálfun í Evrópu. Rannsóknin skoðaði upplifun Erasmus+ nema í starfsþjálfun og voru niðurstöðurnar jákvæðar. Hún sýnir að Erasmus+ starfsþjálfun er frábært tækifæri fyrir nemendur og nýútskrifaða sem eru að læra verknám í framhaldsskólum.
Þátttakendur öðlast jafnt faglega sem félagslega færni og efla persónulegan þroska. Þau sem rætt var við eru hæstánægð með að hafa kynnst því að búa erlendis, því það er nefnilega líka tími til að ferðast og hafa gaman. Það væri hagur í því að fá fleiri nemendur til að taka þátt í Erasmus+ starfsþjálfun.
Viðmælendur í rannsókninni eru einstaklingar á aldrinum 18 til 48 ára sem eiga það sameiginlegt að hafa farið í Erasmus+ námsdvöl í tengslum við starfsmenntun sína. Dvöl þeirra stóð í allt frá tveimur vikum og upp í heilt ár og stunduðu þau nám í skóla eða á vinnustað.
Þau segjast öll ánægð með að hafa fengið tækifæri að fara í starfsþjálfun í öðru landi og telja sig hafa valdeflst bæði faglega og sem manneskjur. Mörg töluðu um mikilvægi þess að fá reynslu af því að búa á nýjum stað og standa á eigin fótum þrátt fyrir ýmsa örðugleika og uppákomur. Það er því ljóst að starfsþjálfun í Evrópu er eins og einn viðmælandi sagði „miklu meira en bara námið“. Annar orðaði þetta einfaldlega svona: „Algerlega æðislegt og ég myndi gera þetta hundrað prósent aftur og aftur.”
Rannsóknin leiðir einnig í ljós að möguleikinn á að fara í starfsþjálfun í Evrópu og sækja um styrk á vegum Erasmus+ sé ekki nægilega kynntur fyrir nemum í starfsmenntun. Nauðsynlegt sé að nemendahópurinn sé meðvitaðri um að hægt sé að læra faggreinina bæði á vinnustað og í skóla erlendis og fá dvölina metna sem hluta af námi á Íslandi. Einnig vekja viðmælendur athygli á mikilvægi þess að meta þá hæfni sem ávinnst með námsdvöl erlendis – bæði þá faglegu en ekki síður aðra hæfni sem er ekki eins sýnileg eða vel skilgreind. Menningar- og félagsfærni getur skipt miklu máli á vinnumarkaði framtíðarinnar og alþjóðleg reynsla hlýtur þar að teljast sérstaklega eftirsóknarverð.
Að lokum má nefna að viðmælendur fengu mismikla hjálp við að finna vinnustað og húsnæði, en oftast fólst aðstoðin í pappírsvinnu í sambandi við styrkinn og ferlið við að ganga frá námsdvölinni. Flóknasta skrefið reyndist vera það að finna vinnustað og má ætla að efla þurfi stuðning í þeim hluta ferlisins.
Landskrifstofa Erasmus+ mun nú leita allra leiða til að kynna þessa könnun fyrir viðeigandi skólum og fá þá með í lið til að kynna Erasmus+ starfsþjálfun og styrkina sem henni fylgir. Einnig er vilji til þess að leita leiða til að nemendur fái meiri stuðning við að finna vinnustaði og húsnæði erlendis.
Rannsóknina gerði Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir Rannís, sem hýsir Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi.
Nánari upplýsingar
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.