Hvað er tvítugur þýskur rafvirki, menntamálaráðherra Portúgals og þekkt sænsk sjónvarpskona og leikskáld að gera saman í Strassborg?

16.6.2017

  • Afmæli í Strassborg
    Myndin var tekin á torginu í miðju Evrópuþinginu. Töluna 30 myndar hópurinn sem Þóra var í og ýmsir aðrir sem tengjast Erasmus+. Þóra er þarna í þristinum fyrir miðju. Geturðu fundið hana?

Þóra Arnórsdóttir sjónvarpskona var viðstödd afmælishátíð Erasmus+ sem fram fór á dögunum í Strassborg. Hún var þar í hópi 33 fulltrúa frá hverju ríki sem taka þátt í áætluninni en þeir eru allir fyrrum Erasmus nemar.

Þegar við leituðum til Þóru og spurðum um hennar upplifun af hátíðinni svaraði hún: ,,Það var mjög hressandi að vera með þessum hópi fólks yfir daginn. Við erum öll ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að nema í öðru landi og öðlast þá lífsreynslu og þroska sem því fylgdi. Erasmus árið mitt á Ítalíu breytti lífi mínu til frambúðar og hið sama gildir um alla sem þarna voru. Sögurnar allar svo ólíkar, en samt með sameiginlegan rauðan þráð. Fólk hefur byggt upp alþjóðlegan feril sem byrjaði með skiptinámi, að ekki sé minnst á öll Erasmus hjónaböndin sem stofnað hefur verið til á þessum árum. Þeim telst til að Erasmus börnin séu orðin milljón!"

Þóra segir alla hafa verið sammála um að Erasmus áætlunin sé eitt best heppnaða verk Evrópusambandsins og það hafi verið ánægjulegt að sjá hversu vel ráðamenn gerðu sér grein fyrir því. Tímarnir hafi hins vegar breyst og nauðsynlegt sé fyrir Erasmus að halda áfram að þróast svo Evrópumenn á öllum aldri sem vilja sækja sér menntun og reynslu í öðrum Evrópuríkjum hafi til þess tækifæri. Hún bætir við: ,,Ég tel afar mikilvægt að áætlunin nái til stærri hóps – ekki bara þeirra sem fara í háskóla. Eins og við þekkjum á Íslandi eru viðkvæmir hópar sem hætta námi í menntaskóla, sem gæti skipt miklu að fengju svona tækifæri. Eins er stefnan sú að gera það auðveldara að sækja nám í fleiri en einum evrópskum háskóla, án þess að þurfa að semja um mat á einingum o.s.frv. Betra flæði gæti þannig mögulega gert allt meistaranám fjölbreyttara. Mér heyrðist á öllu að stefnan væri að efla áætlunina til muna og gera fleirum kleift að taka þátt, enda er verið að leggja töluvert aukna fjármuni í Erasmus+ á næstu árum."

Þökkum við Þóru kærlega fyrir að deila upplifun sinni með þessum hætti í máli og myndum.  

Þóra Arnórsdóttir

Forseti Evrópuþingsins, Antonio Tajani og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, afhentu fulltrúunum 33 viðurkenningu. Hér má sjá Þóru með viðurkenninguna sína.

Mynd7

Hópurinn fagnar nýja appinu sem kynnt var til sögunnar á afmælishátíðinni.

Afmæli í Strassborg

Fjölbreyttur hópur

Þóra segir hópinn hafa verið mjög fjölbreyttan, enda margs konar hlutir sameinaðir undir einum hatti Erasmus+. Allt frá Gretu Paia, 21 árs eistneskri söngkonu til Nicolas Pallikarakis, grísks prófessors á sjötugsaldri sem hefur undanfarinn aldarfjórðung haldið úti metnaðarfullu skiptiprógrammi í líftækni í Patras.

Afmæli í StrassborgHópurinn tók þátt í panelumræðum um næstu 30 ár.

Afmæli í Strassborg

Þrír fulltrúar 33 manna hópsins.

Þrír fulltrúar 33 manna hópsins ávörpuðu Evrópuþingið fyrir hönd þeirra níu milljóna sem hafa tekið þátt í öllum hlutum Erasmus áætlananna í gegnum árin. Þau eru rúmlega tvítugur þýskur rafvirki - því undir Erasmus hattinum er líka skiptinám iðnnema eins og Þóra bendir á, Alexandra Pascalidou frá Svíþjóð, þekkt sjónvarpskona og leikskáld þar í landi og loks Tiago Brandao Rodrigues, menntamálaráðherra Portúgals sem var Erasmusnemi um aldamótin síðustu. Mikill áhugi var á erindum þeirra og var húsfyllir meðan á þeim stóð.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica