13 verkefni hljóta gæðamerki eTwinning

29.9.2016

 • Mynd af verðlaunahöfum
  Guðmundir Ingi Markússon, verkefnisstjóri eTwinning, Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðstjóri Mennta- og menningarsviðs Rannís ásamt fulltrúum eTwinning verkefnanna sem fengu viðurkenningu.

Verkefni sem ætlað er að vekja skapandi virkni barna og næmi fyrir þörfum annarra verðlaunað sérstaklega.

Landskrifstofa eTwinning, Rannís, veitti þann 28. september 2016 13 eTwinning verkefnum gæðamerki, jafnframt því að veita einu þeirra sérstök landsverðlaun. Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís, afhenti viðurkenningarnar við hátíðlega athöfn að loknum Menntabúðum í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Stakkahlíð. Gæðamerkið og verðlaunin eru ætluð til þess að vekja athygli á góðum árangri skólanna og hvetja þá til áframhaldandi þátttöku í evrópsku samstarfi og notkunar upplýsingatækni.

Verkefnin sem hlutu viðurkenninguna eiga það sammerkt að hafa notað upplýsingatækni í samstarfi við evrópskt skólafólk og hafa sýnt fram á nýbreytni og nýsköpun í skólastarfi. Einn skólanna hlaut sérstök landsverðlaun en það er Grunnskóli Bolungarvíkur fyrir verkefnið Sound by sound step by step together. Þetta fjögurra landa samstarfsverkefni sameinar list, tónlist, leiklist og látbragðsleik. Meginmarkmið þess var að vekja skapandi virkni barna og næmi fyrir þörfum annarra. Margskonar verkfærum og aðferðum var beitt í verkefninu, allt frá dansatriðum til forritunar til rafbóka og allt þar á milli.

eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni. eTwinning er hluti af Erasmus+ menntaáætlun ESB og var hleypt af stokkunum árið 2005. Í hverju landi er landskrifstofa sem styður þátttakendur endurgjaldslaust. Hér á landi gegnir Rannís því hlutverki. Yfir þúsund íslenskir kennarar hafa tekið þátt í eTwinning á einn eða annan hátt, og telja samstarfsverkefnin brátt sjö hundruð. Sjá nánar á www.etwinning.is .

Eftirfarandi verkefni hlutu gæðamerki landskrifstofunnar:

 • The European Chain Reaction 2016, Flataskóli
  Árlegt verkefni í Flataskóla sem tengist inn í ólíkar greinar. Fjöldi landa tekur þátt. Hvert þeirra sendir inn myndband af dómínó-keðju sem þátttakendur kjósa um. Verkefnið byggir á samvinnu nemenda og er tengt inn í fjölda greina.
 • Schoolovision 2016, Flataskóli
  Skemmtilegt verkefni tengt ólíkum fögum með Eurovision að fyrirmynd. Tugir landa eru með og sendir hvert þeirra inn myndband sem þátttakendur kjósa um. Verkefnið hefur fest sig í sessi í Flataskóla og virkjar meira og minna allan skólann.
 • What is your story? Flataskóli
  Nemendur í fjórum löndum skrifuðu og unnu sögur með netverkfærinu Padlet.
 • Sound by sound step by step together, Grunnskóli Bolungarvíkur
  Þetta fjögurra landa samstarfsverkefni sameinaði list, tónlist, leiklist og látbragðsleik. Meginmarkmið þess var að vekja skapandi virkni barna og líka næmi fyrir þörfum annarra. Margskonar verkfærum og aðferðum var beitt í verkefninu, allt frá dansatriðum til forritunar til rafbóka og allt þar á milli.
 • The eShow! Grunnskóli Bolungarvíkur
  Kvikmyndaverkefni þar sem nemendur gerðu fréttir, auglýsingar, stuttmyndir og þætti. Fimm lönd unnu saman að verkefninu sem tengdist tungumálum, náttúrufræði, íþróttum og fleiri fögum.
 • Username: children, Password: rights, Grunnskóli Bolungarvíkur
  Verkefnið tengdist samfélagsfræði og tungumálum og fjallar um réttindi barna, flóttafólk og frið. Nemendum var skipt í pör og hópa þvert á lönd, stundaðar umræður og horft á myndbönd. Sex lönd tóku þátt.
 • e-Window, Hrafnagilsskóli
  Í verkefninu var opnaður gluggi á milli landa þar sem nemendur kynntust einföldum hlutum í umhverfi hvers lands. Þátttakendur hittust á Skype og samskiptakerfi eTwinning. Leitast var við að þjálfa nemendur í ábyrgum samskiptum á netinu. Auk Íslands tóku fjögur lönd þátt í verkefninu.
 • BLASTIC, Hraunvallaskóli
  Fjölbreytt verkefni um plastnotkun þar sem nemendur unnu margskonar verkefni með ólíkum aðferðum sem deilt var yfir netið. Einnig var lögð áhersla á að breiða út boðskapinn um minni plastnotkun í skólanum. Auk Íslands tóku sjö lönd þátt í verkefninu.
 • Book it! Langholtsskóli og Kelduskóli
  Verkefnið miðaði að því að hvetja unglinga, ekki síst drengi, til lestrar. Nemendur gerðu kynningarmyndband á ensku um bók sem þeir höfðu valið. Verkefnið þjálfaði lestur, samstarf, myndbandagerð og tjáningu. Níu lönd tóku þátt.
 • Four headed dragon, Leikskólinn Holt
  Verkefnið var hluti af stærra Erasmus+ verkefni sem tengist lýðræði og læsi. Í eTwinning verkefninu bjuggu leikskólabörnin til sögur um dreka sem voru notaðar til þess að kanna ýmis málefni sem tengdust náttúru, samfélagi og tækni. Samstarfslöndin voru fjögur.
 • Kulturudveksling, Leikskólinn Ösp
  Samstarfsverkefni á milli tveggja leikskóla í Danmörku og á Íslandi. Notast var við myndbandsupptökur úr báðum skólum þar sem daglegt starf var skoðað frá ýmsum sjónarhornum.
 • Creating games using Scratch, Réttarholtsskóli
  Markmið verkefnisins var að leiða saman nemendur frá hinum ýmsu löndum Evrópu í gegnum forritun í Scratch sem er netforrit sem hentar vel til þess að búa til leiki, sögur og hreyfimyndir. Nemendum hvers lands var skipt niður í hópa sem bjuggu til leiki sem hinir nemendurnir skoðuðu, ræddu og mátu.
 • Grimmi tannlæknirinn, Selásskóli og Flataskóli
  Fjögurra vikna lestrarverkefni milli tveggja íslenskra skóla þar sem nemendur unnu með bókina Grimmi tannlæknirinn. Nemendum var m.a. skipt í hópa sem gerðu myndband með viðtali við persónu úr bókinni.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica