Rannís tekur þátt í nýju verkefni um raunfærnimat

10.3.2022

Austurríska verkefnið INterconnection/INnovation/INclusion: Austrian contributions to the EHEA 2030 (3-IN-AT-PLUS) hlaut nýverið styrk úr þeim hluta Erasmus+ áætlunarinnar sem ætlað er að styðja yfirvöld á Evrópska háskólasvæðinu við að ná markmiðum Bologna ferlisins. 

Verkefninu er meðal annars ætlað að fjalla um hvernig háskólar geta metið færni sem fólk öðlast með öðrum hætti en gegnum háskólanám og tekur Rannís þar þátt.

Verkefnið endurspeglar þau markmið sem yfirvöld landanna sem mynda Evrópska háskólasvæðið, þar á meðal Íslands, settu sér í Róm árið 2020. Þar var undirritað samkomulag sem miðar að aðgengilegra, samtengdara og nýstárlegra háskólasvæði en áður. Áherslan á raunfærnimat hefur farið vaxandi í umræðu um háskóla á síðustu árum og skipar veigamikinn sess í þeim hluta Rómarsamkomulagsins sem snýr að félagslegri vídd háskólamenntunar. Hann undirstrikar mikilvægi þess að háskólar nái til fólks með fjölbreyttan bakgrunn enda leiði bætt aðgengi að námi til aukins félagslegs réttlætis og lýðræðis í Evrópu.

Markmiðið með raunfærnimati er að greina og viðurkenna færnina sem fólk ávinnur sér með óformlegum hætti, til dæmis með reynslu á vinnumarkaði. Ef sú færni fellur að lærdómsviðmiðum háskólanáms getur raunfærnimat leitt til þess að hún sé metin til ECTS eininga. Með öðrum orðum: að einstaklingi sé ekki gert að læra sama hlutinn tvisvar.

Innleiðing raunfærnimats í íslenskum háskólum er enn skammt á veg komin og mikilvægt er að tryggja gæði, sameiginlegan skilning og samræmda nálgun þegar háskólar eru að þróa ferla sína. Þátttaka Íslands í 3-IN-AT-PLUS mun færa fólki sem starfar við raunfærnimat á háskólastigi hér á landi aukin tækifæri til að tengjast evrópsku samstarfsfólki og deila reynslu, góðum aðferðum og áskorunum með þeim. Settir verða á laggirnar vinnuhópar í löndunum sem taka þátt – Austurríki, Svíþjóð, Írlandi, Íslandi, Króatíu og Þýskalandi – sem munu tengjast hver öðrum og vinna saman.

Umsjón með verkefninu fyrir hönd Rannís hefur Rúna V. Guðmarsdóttir og vinnur hún að þátttöku Íslands í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og ENIC/NARIC á Íslandi. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica