Ný þekkingar- og hæfniáætlun undir heitinu New Skills Agenda for Europe

2.5.2016

Eitt helsta stefnumál framkvæmda­stjórnar ESB um þessar mundir er ný þekkingar- og hæfniáætlun New Skills Agenda for Europe og hafa ýmsir vinnu­hópar á vegum ESB fengið upplýsingar um framtakið, t.d. vinnuhópar ET2020, og fulltrúar landanna beðnir að kynna sér málið og velta fyrir sér hvaða þýðingu það hefur fyrir einstaka markhópa, s.s. starfs­menntun, háskóla­menntun, fullorðins­fræðslu, o.s.frv. Íslenskir fulltrúar hafa tekið þátt í því starfi.

Það er gömul saga og ný að ESB metur sem svo að staðan sé almennt slæm varðandi þekkingar- og hæfnistig fólks, þar sem atvinnuleysi hrjái mörg lönd evrópska efnahagssvæðisins, menntakerfin séu að dragast aftur úr kröfum nútímans varðandi þekkingu og hæfni, mikið sé um brottfall úr námi og ekki sé hugað að grunnfærni fólks, auk þess sem fólk nýti oft ekki þá þekkingu og hæfni sem það hefur þó aflað sér á lífsleiðinni af ýmsum ástæðum. Þetta hafi áhrif á einstaklinga jafnt sem samfélagið, menntakerfi og atvinnulíf ganga ekki í takt og minni verðmætasköpun verður í samfélaginu.

Umræður hafa verið um áætlunina á vettvangi stefnumótunar á vegum ráðherraráðs ESB, annars vegar á sviði menntamála 24. febrúar sl. og á sviði atvinnuvega- og félagsmála 7. mars sl. og byggðust umræður á stefnuskjali sem hollenska formennskan í ráðherraráðinu lagði fram til grundvallar. Framtakið tengist inn á ýmis önnur stefnumál ESB, s.s. ET2020 stefnumótunina í menntamálum sem Ísland tekur þátt í en hún tekur yfir allt menntunarferli einstaklinga. Ný þekkingar- og hæfniáætlun er líka mikilvægur hluti af yfirlýstri stefnu forseta frkvstj. ESB, Jean-Claude Juncker, Jobs, Growth and Investment, sem hann kynnti þegar hann tók við árið 2014, en eitt helsta markmið hennar er að stuðla að uppbyggingu evrópsks samfélags og efnahagslífs eftir fjármálahrunið.

Vinnuáætlun frkvstj. ESB fyrir árið 2016 byggir einmitt á stefnu Juncker stjórnarinnar og þar kemur fram að í júnímánuði verði lögð fram sértæk þekkingar- og færniáætlun, New Skills* Agenda sem hefur þrjú markmið:

  1.  að tryggja betri og meira viðeigandi þekkingu og hæfni fyrir alla,
  2. að auka gagnsæi þekkingar og hæfni einstaklinga, með áherslu á fólk sem flyst milli landa evrópska efnahagssvæðisins vegna menntunar eða atvinnu og fólk frá löndum utan svæðisins sem þangað leitar,
  3. að bæta greiningu á þörf fyrir þekkingu og hæfni, sem svari kröfum atvinnulífs sem er í sífelldri þróun.

Til að ná markmiðunum, hyggst frkvstj. beita sér fyrir aðgerðum í samstarfi við aðildarlönd EES í gegnum áætlanir eins og Erasmus+ og Horizon 2020 og vinnuhópa sem þegar eru starfandi, styrkja stefnumótandi starf og straumlínulaga annað, t.d. sameina áætlanir og gagnsæisverkfæri og styðja enn frekar við samstarf sem ýtir undir bætta þekkingu og færni. Í apríl var lagður fram vegvísir yfir mögulegar aðgerðir til að ná markmiðunum, en í júní er ætlunin að ný þekkingar- og hæfniáætlun New Skills Agenda for Europe líti dagsins ljós.

* enska orðið “skills” er hér notað í víðri merkingu og tekur til þeirrar þekkingar, færni og hæfni sem einstaklingar verða sér úti um á lífsleiðinni, hvort sem er í skóla, í atvinnulífi eða á annan hátt.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica