Move2Learn – eTwinning kennarar og nemendur fá tækifæri til að ferðast

6.4.2017

Í tilefni 30 ára afmælis Erasmus hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákveðið að styrkja um 5.000 ungmenni til að ferðast um Evrópu á þessu og næsta ári, þar af 60 íslenska nemendur. Átakið kallast Move2Learn, Learn2Move. eTwinning verður notað til þess að velja þátttakendur en kennarar sem sækja um gæðamerki geta í leiðinni sótt um styrk fyrir sína nemendur.

1. Fyrir hverja?

Move2Learn er opið evrópskum eTwinning verkefnum

  • þar sem nemendur sem verða 16 ára á árinu eða eldri taka þátt.
  • sem voru skráð frá og með 1. janúar 2016.
  • sem fengu gæðamerki landskrifstofunnar (National Quality Label) síðasta haust, og þeim sem fá gæðamerkið nú í vor.

2. Hvað er styrkt?
Eftirfarandi styrkir í formi farmiða verða veittir:

  1. Bekkjarheimsókn til samstarfsskóla í eTwinning – nemendur og í mesta lagi 4 fullorðnir.
  2. Bekkjarheimsókn til einhvers staðar í Evrópu (t.d. ef af einhverjum ástæðum er ekki hægt að heimsækja samstarfsskóla) – nemendur og í mesta lagi 4 fullorðnir.
  3. Einstaklingsstyrkir til nemenda (t.d. ef nemendur hafa skipt um bekk eða örðugt reynist að skipuleggja bekkjarheimsókn af öðrum ástæðum). 

Hér er um forgangsröðun að ræða. Umsóknir um bekkjarheimsóknir til samstarfsskóla í eTwinning (1) ganga fyrir; því næst bekkjarheimsóknir til Evrópu (2); umsóknir um einstaklingsferðir nemenda reka lestina (3).

3. Svör við umsóknum, úthlutun farmiða og ferðatími
Vinningsumsóknum frá Íslandi verður úthlutað farmiðum til þess áfangastaðar sem tilgreindur er í umsókninni. Ferðaskrifstofa sér um að bóka ferðirnar.

  • Svör við umsóknum berast fyrri partinn í ágúst n.k.
  • Vinningsumsóknir fá farmiða fyrir allt að 530 evrur fyrir hvern ferðalang (kosti farmiði meira verður umsækjanda boðið að finna annan áfangastað).
  • Styrkurinn er aðeins í formi farmiða - annað sem lýtur að ferðalaginu verða umsækjendur að skipuleggja sjálfir (gistingu, uppihald, tryggingar, o.s.frv.).
  • Litið verður til þess hve stórt kolefnisspor ferðarinnar verður, ferðatilhögunin og farmiðarnir taka mið af því að lágmarka kolefnissporið.
  • Glugginn til að ferðast verður opinn frá miðjum ágúst n.k. og út árið 2018. Sjálf ferðin getur í mesta lagi varað í 2 vikur.

4. Viðmið
Til þess að koma til greina í Move2Learn verður verkefnið að fá gæðamerki landskrifstofunnar (National Quality Label). Til viðbótar eru sérstök viðmið sem tengjast Move2Learn.

Gæðamerki landskrifstofunnar (National Quality Label):
Til þess að koma til greina fyrir gæðamerkið verður verkefnið að uppfylla þessi lágmarksskilyrði: 

  • Verkefnið verður að vera með sameiginleg markmið og áætlun.
  • Verkefninu verður annað hvort að vera lokið eða vera á lokastigi.
  • kennarinn sem sækir um verður að hafa lagt töluvert af mörkum í verkefninu.
  • samvinna verður að vera til staðar, a.m.k. að skólinn hafi á einhvern hátt nýtt sér efni frá samstarfsskólum (t.d. skoðað það og brugðist við því).
  • afrakstur verkefnisins verður að vera sýnilegur (þannig að þeir sem fara yfir umsóknina geti skoðað og metið verkefnið).

Séu þessi atriði til staðar eru stig gefin fyrir:

  • nýbreytni í kennsluaðferðum 
  • hvernig verkefnið er fléttað inn í námskrá 
  • hvernig samskiptum og samstarfi skólanna var háttað 
  • notkunar upplýsingatækni 
  • útkomu verkefnisins, áhrif og skrásetningu niðurstaðna

Viðmið vegna Move2Learn:
Fái verkefnið gæðamerkið er litið til þessara atriða er varða Move2Learn sérstaklega:

  • Hvort bekkurinn hafi ferðast áður eða ekki (bekkir sem ekki hafa ferðast ganga fyrir)
  • Hvort bekkurinn ferðist saman (bekkjarferð) eða hvort hver nemandi ferðast sér (bekkjarferðir verða í forgangi)
  • Að hve miklu leyti verkefnið og/eða ferðin uppfylli skilyrði um jafnrétti til náms og félagslegt réttlæti, í stuttu máli, jafnrétti (inclusion)
    • Þetta síðasta atriði verður túlkað nokkuð opið. Sjálft eTwinning verkefnið þarf ekki að snúast um jafnrétti heldur dugar að ferðin, eða skólinn, tengist því á einhvern hátt. Sem dæmi mætti nefna þessa möguleika:
      • hópurinn kynnir sér jafnrétti til náms og/eða félagslegt réttlæti (inclusion) í ferðinni
      • Skólinn er með stefnu um jafnrétti til náms og/eða félagslegt réttlæti (inclusion) sem er lýst í umsókninni
      • svo allir nemendur geti ferðast er kostnaði haldið niðri með því að hópurinn gisti hjá fjölskyldum erlendis eða í móttöku skólanum

5. Umsóknafrestur fyrir íslenskar umsóknir er til og með 18. júní 2017
Búið er að opna fyrir umsóknir og er umsóknafrestur fyrir íslenskar umsóknir í Move2Learn til og með 18. júní. Sótt er um gæðamerki landskrifstofunnar (National Quality Label) inn á eTwinning Live undir Projects; smellið á Apply for a Quality Label við viðkomandi verkefni. Í umsóknarforminu er hakað við hvort umsækjandi vilji taka þátt í Move2Learn og beðið um frekari upplýsingar um ferðalanga og fyrirhugaða ferð. Athugið eftirfarandi:

  • 18. júní er sérstakur umsóknafrestur fyrir Ísland (aðrir frestir geta verið í Evrópu).
  • Umsóknir síðan síðasta haust hafa verið opnaðar aftur ef ske kynni að aðstandendur þeirra vilji sækja um Move2Learn.

6. Nánari upplýsingar
Allar nánari upplýsingar og reglur er að finna hér á vef eTwinning.

Tengiliður hjá Rannís: Guðmundur Ingi Markússon – gim (hjá) rannis.is – 515 5841.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica