Ráðstefna um jöfn tækifæri í Erasmus+ fór fram föstudaginn 11. október í Menntaskólanum í Kópavogi. Erasmusdagar eru haldnir árlega víða um Evrópu til að vekja athygli á öllum þeim góðu verkefnum og starfi sem er styrkt af Erasmus+, styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál. Íslenski viðburðurinn var að þessu sinni helgaður málefnum þeirra hópa sem hafa færri tækifæri og vakin athygli á því markmiði Erasmus+ að efla þátttöku þeirra í tækifærum erlendis og í samfélaginu í heild.
Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís og forstöðumaður Landskrifstofu Erasmus+, opnaði ráðstefnuna og Ágnes Sarolta Fazekas, aðjúnkt og doktorsnemi við Eötvös Loránd University í Búdapest, flutti opnunarávarp þar sem hún fjallaði um hvata og hindranir fólks með fötlun í alþjóðlegu samstarfi. Að því loknu tóku við fjórar ólíkar vinnustofur sem leiddu saman núverandi og verðandi þátttakendur í Erasmus+, landskrifstofu, ungt fólk og starfsfólk á öllum sviðum menntunar og æskulýðsmála. Óhætt er að segja að vinnustofurnar hafi veitt innblástur fyrir ný verkefni og hugmyndir um hvað má bæta svo tækifærin í Erasmus+ séu í raun og veru fyrir alla.
Þegar formlegari dagskrá lauk tók við viðurkenningarathöfn. Alls hlutu sjö verkefni viðurkenningu, sem eiga það öll sameiginlegt að stuðla að jöfnum tækifærum. Veittir voru viðurkenningargripir frá handverkstæðinu Ásgarði í Mosfellsbæ, sem er verndaður vinnustaður sem vinnur í anda Rudolf Steiner. Einnig voru frumsýnd myndbönd um hvert og eitt þessara fyrirmyndarverkefna.
Viðurkenning fyrir æskulýðsverkefni
Samtökin Stelpur rokka hlutu viðurkenningu fyrir verkefnið „Music Empowerment Mobility and Exchange“. Verkefnið snerist um að efla ungar stelpur, kynsegin og intersex ungmenni í gegnum tónlistarsköpun og jafnréttisstarf. Um er að ræða 11 landa samstarf og skipulagði hópurinn rokksumarbúðir í Berlín 2018 og á Íslandi 2019, auk vinnusmiðja fyrir starfsfólkið sem vinnur með ungmennunum. Í rokksumarbúðunum, sem nærri 100 ungmenni tóku þátt í, lærðu þátttakendur á hljóðfæri, spiluðu saman í hljómsveit, kynntust farsælu tónlistarfólki, fræddust um ýmsar hliðar tónlistar og jafnréttisbaráttu. Að lokum komu þátttakendur fram á tónleikum fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu.
Sjá myndband: Stelpur rokka
Viðurkenning fyrir verkefni á leik- grunn- eða framhaldsskólastigi
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hlutu viðurkenningu fyrir tvö Erasmus+ verkefni: „Stuðningur til að efla læsi og aðlögun fjöl-/tvítyngdra í grunnskólum“ og „Starfsspeglun í kennslu og aðlögun fjöl-/tvítyngdra í grunnskólum“. Sveitarfélögin á höfuðborgar¬svæðinu, tóku höndum saman við að veita kennurum þjálfun og reynslu í móttöku og aðlögun innflytjenda og flóttamanna í grunnskólunum á höfuðborgarsvæðinu, með það að markmiði að aðlaga þá betur samfélaginu.
Sjá myndband: Stuðningur til að efla læsi og aðlögun
Viðurkenning fyrir verkefni í starfsnámi
Landbúnaðarháskóli Íslands hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið „Safe Climbing“. Verkefnið snýst um að búa til aðgengilegt rafrænt námsefni fyrir kennslu og verklega þjálfun í trjáklifri sem nýtist þeim sem ýmist kenna trjáklifur eða eru að læra trjáklifur. Kennsluefnið sem var framleitt í verkefninu er sett upp með aðgengi fyrir breiðan hóp fólks í huga. Það gengur út á að hafa lítinn texta og styðja hann með myndum, teikningum og myndböndum sem útskýra það sem fjallað er um í textanum. Algengt er að fólk sem glímir við námsörðugleika leiti í verklegt nám og varð það kveikjan að því að ákveðið var að taka þessa stefnu í uppsetningu á námsefninu.
Sjá myndband: Safe Climbing
Viðurkenning fyrir verkefni á háskólastigi
Skrifstofa alþjóðasamskipta Háskóla Íslands hlaut viðurkenningu fyrir stuðning við nemendur með fötlun sem hafa farið erlendis í skiptinám og starfsþjálfun. Háskóli Íslands hefur tekið virkan þátt í Erasmus+ verkefnum um nám og þjálfun frá upphafi og leggur áherslu á að tækifærin sem áætlunin býður upp á séu opin og aðgengileg öllum stúdentum og starfsfólki skólans. Skrifstofa alþjóðasamskipta vinnur í nánu samstarfi við náms- og starfsráðgjafa innan skólans og leitast við að ná til hins fjölbreytta nemendahóps í heild sinni með öflugu kynningarstarfi, bæði á íslensku og ensku. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að kynna Erasmus+ viðbótarstyrki til að mæta aukalegum kostnaði umfram aðra vegna fötlunar eða heilsufars. Til þessa hafa fjórir nemendur með fötlun hlotið slíka styrki fyrir skiptinámi eða starfsþjálfun erlendis sem metið hefur verið inn í námið við Háskóla Íslands.
Sjá myndband: Skrifstofa alþjóðasamskipta í HÍ
Viðurkenning fyrir verkefni í fullorðinsfræðslu
Intercultural Iceland hlaut viðurkenningu fyrir Erasmus+ samstarfsverkefnið „I´m not a racist, but...“. Þetta sérstaka heiti á verkefninu vísar til þess að margir þekkja ekki hinar ólíku birtingarmyndir fordóma og rasisma og telja sig jafnvel fordómalausa þótt sú sé ekki raunin. Samstarfslöndin fjögur hönnuðu námskeið og stuðningsefni (t.d. mjög áhugavert fordómapróf á facedbook) fyrir þá sem vilja halda námskeið um dulda fordóma og rasisma. Í þessu verkefni var sjónum beint að því að ná til þeirra sem valda vanlíðan og útilokun ákveðinna hópa.
Smá myndband: I´m not a racist but...
Viðurkenning fyrir e-twinning verkefni
eTwinning er rafrænt skólasamstarf og er rekið af Erasmus+ áætluninni og styður við samstarf skóla á öllum skólastigum. Margir íslenskir kennarar á öllum skólastigum hafa tekið þátt í bæði eTwinning og Erasmus+ verkefnum og það á við um Heilsuleikskólinn Skógarás, sem hlaut viðurkenningu fyrir Erasmus+ verkefnið „Eco Tweet: Little Ecologist“. Í verkefninu unnu 11 lönd saman að vitundavakningu um umhverfismál, umhverfisvernd og endurvinnslu.
Sjá myndband: e-Twinning
Viðurkenning - Evrópumerkið
Einnig var veitt viðurkenning fyrir Evrópumerkið – the European Language Lable.
Evrópumerkið er viðurkenning fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytið veita. Evrópumerkið er veitt annað hvert ár á Íslandi og fylgir viðurkenningunni einnig 300.000 kr. styrkur sem ráðuneytið leggur til.
Þjónustumiðstöð Breiðholts hlaut Evrópumerkið 2019 fyrir verkefnið „Stígum saman í áttina að öflugra samfélagi“. Verkefnið er íslenskunámskeið, sérstaklega haldið fyrir starfsfólk leikskóla af erlendum uppruna. Á námskeiðinu var bæði kennd íslenska og líka farið yfir menntastefnu Reykjavíkurborgar, lög um samskipti milli starfsfólks og foreldra, menningarnæmi og ýmislegt annað sem nýtist í starfinu.
Sjá myndband: Evrópumerkið
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.