„Engin þjóð hefur af jafn miklum þrótti nýtt sér tækifærin til margvíslegra menningarlegra samskipta á sviði lista, rannsókna, kennslu og náms og Íslendingar“ segir í skýrslu starfshóps utanríkisráðherra um EES-samninginn sem birt var á vef Alþingis í vikunni. Skýrslan er ein viðamesta úttekt sem gerð hefur verið á umfangi og ávinningi EES-samningsins síðan hann tók gildi fyrir aldarfjórðungi. Hún var gerð að beiðni Alþingis í þeim tilgangi að greina kosti og galla EES-aðildar og áhrif hennar á íslenskt samfélag. Niðurstaðan er afdráttarlaus: EES-samningurinn lifir góðu lífi og hætta væri á einangrun, stöðnun og afturför ef horfið væri frá honum.
Skýrslan dregur skýrt fram þau áhrif sem EES-samningurinn hefur haft á menntun, menningu og rannsóknir í landinu auk ávinningsins fyrir íslenskan efnahag og atvinnulíf. Það er samningnum að þakka að Íslendingar hafa um árabil tekið þátt í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins meira og minna á sama grundvelli og með sömu réttindum og þátttakendur frá aðildarríkjum ESB. Áætlað er að frá árinu 1992 hafi yfir 40 þúsund Íslendingar hafi tekið þátt í evrópsku samstarfi með stuðningi frá samstarfsáætlunum ESB eða meira en tíundi hver Íslendingur. Menntun og æskulýðsmál vega hér þungt, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem sýnir fjölda íslenskra þátttakenda í Erasmus+ og forverum hennar. Hér ber að nefna að tölur fyrir æskulýðshlutann liggja aðeins fyrir frá árinu 2014.
Tækifærin sem Erasmus+ hefur gefið Íslendingum til að efla færni sína og tengslanet og víkka sjóndeildarhringinn á erlendri grundu byggjast á réttinum til frjálsar farar fólks – einum af hornsteinum samningsins, sem gerir borgurum kleift að búa og starfa innan alls EES-svæðisins án takmarkana.
EES-samningurinn hefur þannig fært Íslendingum fjölmörg sóknarfæri í evrópska samkeppnissjóði og árangurshlutfall íslenskra umsækjenda er hærra en gengur og gerist, eins og fram kemur í skýrslunni. Þegar horft er til framtíðar má ætla að tækifærin fyrir Íslendinga muni aukast enn frekar. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu um stórauknar fjárveitingar til áætlunarinnar. Stefnt er að því að næsta kynslóð Erasmus+ fyrir tímabilið 2021-2027 verði enn aðgengilegri en áður og muni stuðla að jöfnum tækifærum og fjölbreytni í samfélaginu af auknum krafti. Ávinningurinn af EES-aðild með þátttöku í Erasmus+ fer því vaxandi með hverju árinu fyrir land og þjóð.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.