Opið samráð varðandi mat milli landa á framhaldsskóla- og háskólanámi

5.2.2018

Evrópusambandið leggur áherslu mikilvægi menntunar við að tryggja atvinnumöguleika og virka þátttöku fólks í samfélaginu, sem og við að stuðla að samevrópskri vitund sem byggir á fjölbreytileika álfunnar. Því var samþykkt á leiðtogafundi Evrópusambandsríkja í Gautaborg í nóvember 2017 að löndin ynnu saman að uppbyggingu evrópsks menntasvæðis.

Evrópskt menntasvæði á meðal annars að gera fólki kleift að leggja stund á nám í öðru landi, hvort sem er á framhaldsskóla- eða háskólastigi, án þess að til vandamála komi þegar meta á nám milli landa. Þetta gildir bæði um mat á prófgráðum heima fyrir þegar farið er út og prófgráðum að utan þegar heim er komið.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú hafið opið samráð í þessum málaflokki og verða niðurstöðurnar notaðar til grundvallar nýrra tilmæla Evrópuráðsins, sem munu auðvelda mat á námi milli landa. Samráðið er ætlað sem breiðustum hópi; almenningi, stofnunum og öðrum hagsmunaaðilum sem starfa á sviði menntamála eða hafa áhuga á þessum málaflokki. Frestur til að taka þátt í samráðinu er til mánudagsins 19. febrúar. 

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum í þessu opna samráði geta gert það með því að svara könnun þar sem lagðar eru fram spurningar um mat á námi milli landa.

Taka þátt í könnun 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica