Í ár hefur göngu sína nýtt tímabil í sögu Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) sem gildir til 2027. Byggt verður á þeim mikla árangri sem áætlanirnar hafa náð við að koma á samvinnu og skapa samstöðu í Evrópu.
Milljónir einstaklinga á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn hafa fengið tækifæri til að auka færni sína og þekkingu erlendis og mynda tengsl sem oft vara alla ævi. Þátttakendum ber saman um að reynslan auðveldi þeim að lifa og starfa í okkar fjölbreytta nútímasamfélagi.
Stofnanir og samtök á Íslandi hafa tekið evrópskum tækifærum opnum örmum frá því að þau buðust þeim fyrst árið 1992 og nýtt þau gríðarlega vel til að efla mennta- og æskulýðssamfélagið hér á landi.
Á tímabilinu 2014-2020 úthlutaði Ísland um 60 milljónir evra til tæplega 1000 verkefni sem náðu til yfir 40 þúsund þátttakenda. Með enn hærra framlagi á nýju tímabili geta enn fleiri notið góðs af.
En hvaða breytingum má búast við, og hverjar eru helstu nýjungarnar?
Heildarfjármagn til Erasmus+ og European Solidarity Corps eykst töluvert. Erasmus+ mun hafa tvöfalt meira fjármagin úr að spila en á síðasta tímabili – eða um 26 milljarða evra. Auk þess verður um einum milljarði evra veitt til að takast á við samfélagslegar áskoranir og sýna samstöðu í verki í gegnum European Solidarity Corps sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni.
Sundurliðun milli landa liggur ekki fyrir fyrr en áætlanirnar líta dagsins ljós á fyrstu mánuðum ársins, Hið sama gildur um styrkupphæðir fyrir einstaka verkefnaflokka. Þó er ljóst að nýir styrkjamöguleikar verða kynntir á vissum sviðum, til að mynda styrkir til undirbúningsheimsókna og fyrir námskeiðsgjöldum, auk þess sem aukin tækifæri verða til dvalar erlendis við nám og þjálfun.
Umsóknarferlinu í Evrópuáætlanir fylgir alltaf nokkur umsýsla, en nú hafa verið boðaðar breytingar til að draga úr skriffinnskunni. Sem dæmi má nefna möguleikann á að sækja um sérstaka aðild, og kallað var eftir þess konar umsóknum í menntahluta Erasmus+ haustið 2020.
Þær stofnanir sem hafa staðfest aðild sína að áætluninni geta framvegis sótt um styrki til náms og þjálfunar á einfaldari hátt, því þær hafa sýnt fram á að unnin hafi verið vönduð áætlun um fjölþjóðlegt samstarf sem hluti af framtíðarstefnu þeirra. Aðild verður líka möguleg í æskulýðshlutanum árið 2021. Ný Erasmus+ áætlun mun þar að auki bjóða upp á lítil samstarfsverkefni í vissum undirflokkum þar sem umsýsla styrkja hefur verið einfölduð til muna.
Eitt af markmiðum Erasmus+ og ESC hefur verið að tryggja jafnt aðgengi að áætlununum, ekki síst fyrir þá sem mæta hindrunum fyrir þátttöku, til að mynda af heilsufarslegum, landfræðilegum eða félagslegum ástæðum. Nýjar áætlanir hafa jöfn tækifæri að leiðarljósi og bjóða upp á ýmsar leiðir til að ná til fjölbreyttari hópa. Í mörgum undirflokkum verða möguleikar á styttri dvöl kynntir til sögunnar sem valkostur til að sem flest fái tækifæri til að halda utan. Aukalegir styrkir verða áfram veittir þátttakendum með fötlun. Æskulýðssamtök munu geta skipulagt ungmennaverkefni í smærri einingum en áður, sem ætti að auðvelda ferðalög milli landa með ungum einstaklingum með fötlun og greiningar. Nemendur í fullorðinsfræðslu munu geta stundað nám og þjálfun erlendis, en slíkir möguleikar voru ekki fyrir hendi á síðasta tímabili.
Viðtal við Ingu Björk, mastersnema í listfræði
Að lokum má nefna aukna áherslu á alþjóðavæðingu í heimalandinu og nýja möguleika til að bjóða erlendum sérfræðingum að kenna. Þetta getur skipt sköpum fyrir þau sem ekki sjá sér fært að dvelja erlendis því þannig fær nám þeirra eða þjálfun alþjóðlega vídd samt sem áður.
Loftslagsbreytingar eru á allra vörum og ljóst er að við þurfum að taka stór skref til að sporna við þeim saman, og það hratt. Það er mikilvægt að finna leiðir til að taka þátt í alþjóðasamstarfi í sátt við umhverfi og loftslag, því samvinna þjóða er lykillinn að því að árangur náist í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Nýjar áætlanir munu þess vegna hafa sjálfbærni í forgangi og hvetja til samstarfsverkefna sem takast á við þennan málaflokk. Þær munu ennfremur hvetja þátttakendur til að vera meðvitaðir um vistspor sitt, velja umhverfisvæna ferðamáta þegar hægt er og skipuleggja viðburði með umhverfisvernd að leiðarljósi.
Gríðarleg tækniþróun hefur átt sér stað í samfélaginu á síðustu árum, og eitt af markmiðum nýrra áætlana er að tryggja að fólk hafi þá færni sem hinn stafræni heimur krefst af þeim. Mörg hafa nú þegar þreytt frumraun sína við að læra með fjarnámi eða öðrum stafrænum lausnum sökum heimsfaraldursins og mikilvægt er að draga lærdóm af því ferli. Í menntahlutanum verður mögulegt að dvelja erlendis í styttri tíma en áður og taka hluta af Erasmus+ tímabilinu í heimalandi sínu með hjálp tækninnar.
Stafræn þróun verður eitt af forgangsatriðum í samstarfsverkefnum og umsækjendur hvattir til að þróa verkefni sem styðja mennta- og æskulýðssamfélagið í átt til framtíðar.
Frá árinu 2015 hefur Erasmus+ gert háskólum kleift að rækta tengsl sín við stofnanir í löndum utan Evrópu. Á nýju tímabili verða kynntar nýjar leiðir fyrir stofnanir og samtök á sviði mennta- og æskulýðsmála að teygja sig út fyrir álfuna og þróa fjölþjóðleg verkefni með samstarfsaðilum um allan heim.
Áætlununum er ætlað að styðja stofnanir, samtök og ríki í Evrópu við að ná fram sameiginlegum markmiðum á sviði mennta- og æskulýðsmála. Sú stefnumótun sem einkum mótar Erasmus+ og ESC á komandi tímabili er:
Einnig er mikilvægt að þátttakan hjálpi löndunum við að ná fram markmiðum sínum sem skilgreind eru í hverju landi fyrir sig, svo sem í Menntastefnu Íslands til ársins 2030 sem og Æskulýðsstefnu.
Nýjungarnar á komandi tímabili hafa eflaust vakið áhuga margra á að senda inn umsókn – en ekki alveg strax. Nú er verið að ræða lagatextana fyrir þessar áætlanir í Evrópuþinginu og Evrópuráðinu áður en fyrstu umsóknarfrestir verða auglýstir í febrúar eða mars 2021. Einnig eru samningaviðræður um aðild okkar Íslendinga að áætlununum í ferli. Vegna þessa má gera ráð fyrir að fyrstu umsóknarfrestir ársins séu seinna en vanalega.
Fylgist með hér á síðunni og skráið ykkur á póstlistann okkar til að fá fréttir af framvindunni.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.