eTwinning samstarfsverkefni

Í eTwinning samstarfi er lagt er upp með einfaldleikann s.b. einkunnarorðin „hafið það lítið og einfalt“ ( keep it short and simple—KISS). Engar reglur eru um hvernig verkefni eiga að vera – þau geta varað í stuttan eða langan tíma, farið í gang hvenær sem er á skólaárinu og þátttakendur geta verið fleiri eða færri (tveir stofna verkefnið og geta boðið fleirum með). Verkefnin geta því verið hvernig sem er svo lengi sem þau er hluti af kennslunni og falla að námsskrá og uppeldismarkmiðum skólans.

eTwinning verkefnin geta breytt skólastarfinu og auðgað á margan hátt, víkkað sjóndeildarhring bæði nemenda og kennara og aukið færni þeirra á ýmsa vegu.  Allar námsgreinar eru gjaldgengar og auðveldlega má tengja samstarfið inn í margar námsgreinar. Reynslan sýnir að þátttaka í eTwinning samstarfi eflir starfsþróun kennara og áhuga og áræðni nemenda. Hvert verkefni fær svæði til að halda utan um samstarfið (TwinSpace) öruggt svæði fyrir kennara og nemendur .

eTwinning samstarf í Evrópu eða innanlands?

Venjulega eru eTwinning verkefni samstarf a.m.k. tveggja Evrópulanda – til að teljast Evrópuverkefni og eiga kost á evrópskum gæðaviðurkenningum verður svo að vera. Hins vegar er einnig hægt að stofna til eTwinning samstarfs innanlands, þ.e. með öðrum íslenskum skóla.

Hvernig er eTwinning samstarf hugsað?

Eins og segir að ofan ræður fólk því hvernig verkefnið lítur út. Þó er hægt að benda á nokkrar þumalputtareglur:

 • Gangið út frá skýrri og einfaldri hugmynd
 • Verið með þema sem skiptir ykkur máli (t.d. tengt einhverri þörf eða áhuga sem þið, skólinn eða samfélagið hafið eða finnið fyrir)
 • Tengið samstarfið námskrá og námsáætlunum, þ.e. nýtið það inn í þeirri kennslu sem er fyrir (lítið á verkefnið sem nýja aðferð eða nýtt sjónarhorn á kennsluna)
 • Setjið eTwinning verkefnið inn í þær námsáætlanir sem fyrir hendi, þannig að það bætist ekki við heldur fléttist inn í skólastarfið (lítið á verkefnið sem nýja aðferð eða nýtt sjónarhorn á kennsluna)
 • Útbúið tímaáætlun sem þið fylgið en hafið hana samt sveigjanlega
 • Verið með skýr og einföld markmið, helst mælanleg
 • Lítið á hina þátttakendurnar sem virka en ekki aðeins sem áhorfendur – þ.e. reynið að stunda samvinnu en ekki aðeins samsíða vinnu (sjá fyrir neðan)
 • Hafið verkefnið lítið og einfalt!

Samvinna eða samsíða vinna?

Með samsíða vinnu er átt við að skólarnir geri það sama í sitt hvoru lagi og sýni hinum afraksturinn. Þarna eru hinir í verkefninu fyrst og fremst áhorfendur að því sem þið gerið. Samsíða vinna getur auðvitað átt við – það fer eftir eðli verkefnisins – en ef það er hægt að byggja verkefnið á samvinnu er það kostur.

Með samvinnu er átt við að skólarnir vinni saman að viðfangsefnum. Til dæmis:

 • að nemendum sé skipt í hópa þvert á lönd (að íslenskir og erlendir nemendur vinni saman að einhverju)
 • einn skólinn safnar efni sem annar greinir
 • annar skólinn gerir myndband, hinn setur inn hljóðið
 • danskir/spænskir/enskir nemendur senda íslenskum félögum spurningar og þegar svörin berast leiðrétta þeir dönskuna/spænskuna/enskuna hjá Íslendingunum  
 • skóli í einu landi setur upp ævintýri frá öðru landi sem er tekið upp á myndband

Í samvinnu eru hinir í verkefninu virkir en ekki aðeins áhorfendur.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica