Dagana 4.–7. september tók Íris, umsjónarkennari á yngsta stigi í Norðlingaskóla, þátt í sinni fyrstu alþjóðlegu eTwinning vinnustofu í Helsinki, Finnlandi. Hún segir reynsluna hafa verið ómetanlega – bæði faglega og persónulega – og kemur heim með nýjar hugmyndir, verkfæri og tengsl sem munu nýtast í framtíðarstarfi.
Dagana 4.–7. september tók Íris, umsjónarkennari á yngsta stigi í Norðlingaskóla, þátt í eTwinning vinnustofu í Helsinki, Finnlandi ásamt Stellu Aradóttur kennara við Salaskóla og Kristjönu Pálsdóttur, kennara við Árbæjarskóla. Þetta var fyrsta alþjóðlega ráðstefnan hennar Írisar og hún segir að upplifunin hafi verið bæði einstök og hvetjandi.
Hvernig var að mæta á þína fyrstu vinnustofu?
„Ég hafði aldrei áður tekið þátt í alþjóðlegum viðburði af þessu tagi, svo ég var bæði spennt og smá stressuð. En frá fyrstu mínútu fannst mér ég vera hluti af opnu og skapandi samfélagi kennara. Fyrsti dagurinn var helgaður ísbrjótum og hópverkefnum sem hjálpuðu okkur að kynnast og finna það sem við eigum sameiginlegt. Það var frábær byrjun.“
Hvaða áherslur voru í dagskránni?
„Á föstudeginum var meginþemað gervigreind í skólastarfi. Það var bæði áhugavert og áskorandi að ræða hvernig tæknin getur nýst í kennslu, en líka hvaða ábyrgð við berum sem kennarar. Við fengum að prófa verkfæri eins og Padlet, Google Arts & Culture, Leonardo.ai og notebooklm. Sérstaklega fannst mér áhugavert hvernig gervigreind getur stutt bæði sköpun og gagnrýna hugsun hjá nemendum.“
Hvað stendur upp úr hjá þér?
„Síðasti dagurinn var ótrúlega hvetjandi. Við tengdumst í gegnum eTwinning vettvanginn og unnum að hugmyndum fyrir möguleg framtíðarverkefni. Það var magnað að sjá hversu einfalt er að hefja samstarf yfir landamæri – og hvað við getum lært mikið hvert af öðru.“
Hvað tekurðu með þér heim?
„Ég kem heim með fullt af hugmyndum, nýjum verkfærum og ekki síst tengslum sem munu gagnast mér bæði í kennslu og í framtíðarverkefnum. Fyrir mig sem nýliða í eTwinning var þetta ómetanlegt tækifæri – ég lærði svo margt, fann innblástur og eignaðist samstarfsaðila sem ég hefði annars aldrei kynnst.“