Reynslusaga kennara: Fyrsta eTwinning-ráðstefnan í Brussel

1.12.2025

Rósa Vigfúsdóttir og Arna María Geirsdóttir, kennarar í Áslandsskóla og Engjaskóla, segja frá sinni fyrstu eTwinning-ráðstefnu í Brussel þar sem 20 ára afmæli eTwinning var fagnað og áhersla lögð á hvernig eTwinning getur sameinað kennara í Evrópu.

Hin árlega eTwinning ráðstefna 2025 var haldin í Brussel dagana 23.–25. október og markaði 20 ára afmæli eTwinning. 

Þema ráðstefnunnar, “Celebrating What Unites Us,” snerist um það sem sameinar evrópska skólasamfélagið:

  • samvinna,
  • fjölbreytileiki,
  • nýsköpun og
  • sameiginleg framtíðarsýn í menntun.

Á ráðstefnunni komu saman um 200 kennarar, skólastjórnendur og sérfræðingur víðs vegar að úr Evrópu. Þátttakendur tóku þátt í vinnustofum, erindum og samræðum sem snéru að því hvernig skólar geta búið nemendur betur undir framtíðina með samstarfi og skapandi verkefnum.

Við vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast, þar sem þetta var okkar fyrsta eTwinning-viðburður,“ segja Rósa og Arna þegar þær líta til baka. En ráðstefnan fór langt fram úr væntingum. Þetta var ótrúlega innihaldsrík og gefandi upplifun. Það sem heillaði okkur mest var að heyra hversu líkar áskoranir kennarar um alla Evrópu standa frammi fyrir,“ segja þær. Hvort sem það var læsi, lífsleikni eða aukin snjalltækanotkun, þá voru allir að velta sama fyrir sér: hvernig kennum við nemendum að ná tökum á grundvallarfærni sem skiptir máli í daglegu lífi?

Hópefli var stór hluti ráðstefnunnar og þátttakendur unnu saman í litlum fjölþjóðlegum hópum alla dagana. „Þetta gerði upplifunina enn betri. Við kynntumst kennurum frá mörgum löndum og sjáum nú þegar möguleika á samstarfi,“ segja þær. „Þetta var frábær byrjun fyrir okkur sem nýjar í eTwinning.“

Á vinnustofunum fengu þær að kynnast fjölbreyttum eTwinning-verkefnum og prófa verkefni sem tengdust þeim. „Við fengum fullt af hugmyndum sem við getum nýtt í okkar kennslu og deilt með samstarfsfólki,“ útskýrir Arna.

Báðar eru þær sammála um að ráðstefnan hafi opnað dyr að nýjum möguleikum. „Við komum heim fullar af innblæstri og til í að takast á við okkar fyrstu eTwinning-verkefni,“ segir Rósa. „Það er ljóst að þetta var bara upphafið.“

„Þetta var einstakt tækifæri,“ bæta þær við. „Og við getum ekki beðið eftir að halda áfram.“








Þetta vefsvæði byggir á Eplica