Íris Hrönn Kristinsdóttir, kennsluráðgjafi á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, tók þátt í evrópsku ráðstefnunni eTwinning for Future Teachers – European Conference for Initial Teacher Education 2025 sem haldin var í Mílanó á Ítalíu. Þar komu saman háskólakennarar og kennaranemar víðs vegar að úr Evrópu til að fjalla um hvernig eTwinning samstarfsverkefni geta stutt við kennaranám, eflt faglegt samstarf og stuðlað að nýsköpun í menntun.
Íris Hrönn Kristinsdóttir, kennsluráðgjafi á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, tók nýverið þátt í eTwinning for Future Teachers – European Conference for Initial Teacher Education 2025 sem haldin var í Mílanó á Ítalíu. Ráðstefnan beindist að hlutverki eTwinning í kennaranámi og hvernig alþjóðlegt rafrænt samstarf getur stutt við faglega þróun framtíðarkennara.
eTwinning er evrópskur samstarfsvettvangur fyrir skóla þar sem kennarar og nemendur vinna saman í stafrænum verkefnum þvert á landamæri. eTwinning fyrir kennaranema var fyrst kynnt sem tilraunaverkefni árið 2012 og hefur síðan vaxið hratt og orðið hluti af kennaranámi í mörgum Evrópulöndum. Á ráðstefnunni komu saman háskólakennarar í kennslufræðum og kennaranemar víðs vegar að úr Evrópu með það að markmiði að skoða hvernig eTwinning samstarfsverkefni geta stutt við kennaranám, eflt faglegt samstarf milli landa og stuðlað að nýsköpun í menntun.
Áhersla ráðstefnunnar í ár var meðal annars á hvernig eTwinning verkefni geta eflt færni í læsi, stærðfræði, vísindum, stafrænni hæfni og lýðræðislegri þátttöku. eTwinning miðar þó ekki eingöngu að því að efla nám nemenda heldur er vettvangurinn einnig mikilvæg leið fyrir nemendur til að kynnast jafnöldrum víða um heim, fá innsýn í ólíkar aðstæður og takast sameiginlega á við verkefni og áskoranir.
Fjallað var um fjölbreyttar leiðir til að flétta eTwinning inn í kennaranám, þar sem samstarfsverkefni geta verið bæði einföld og flóknari, hluti af námskeiðum eða valnámi og jafnvel tengt kennaranema við starfandi kennara í öðrum löndum. Einnig var fjallað um hvernig eTwinning getur verið upphaf að stærri Evrópuverkefnum, til dæmis innan Erasmus+ áætlunarinnar, þar á meðal svokallað blended mobility. Þar er staðbundinni dvöl og samvinnu á netinu fléttað saman þannig að þátttakendur vinna fyrst saman í stafrænu umhverfi áður en þeir hittast í samstarfslandi til áframhaldandi vinnu, vinnustofa og kynninga. Þessi leið hefur reynst vel til að auka aðgengi að alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega fyrir nemendur sem ekki hafa tök á að dvelja erlendis í lengri tíma.
Ráðstefnan var vel skipulögð og bauð upp á fjölbreytt dagskrá, þar á meðal aðalfyrirlesara, kynningar á verkefnum þátttakenda og vinnustofur. Mikil áhersla var lögð á hópavinnu þar sem þátttakendur störfuðu í fjölþjóðlegum hópum, miðluðu reynslu af eTwinning verkefnum og efldu tengslanet sitt. Í þeirri vinnu kom skýrt fram að eTwinning samstarf fyrir kennaranema er dýrmætt tækifæri fyrir verðandi kennara til að tengjast öðrum sem leggja stund á kennslufræði víða um heim, víkka sjóndeildarhringinn og læra af reynslu annarra.