Fyrir umsækjendur

Leiðbeiningar fyrir stofnanir og lögaðila

Þegar sækja á um í Erasmus+ er að mörgu að hyggja. Hér hafa verið teknar saman nytsamlegar upplýsingar sem gott er að hafa til hliðsjónar í umsóknarferlinu. 

Umsóknarfrestir 2020

Framkvæmdastjórn ESB auglýsir formlega eftir umsóknum fyrir ár hvert. 

Umsóknarfrestir Erasmus+ fyrir árið 2020

Auglýsing Framkvæmdastjórnar ESB um umsóknir í Erasmus+ fyrir árið 2020 í heild sinni.

Þeir sem hafa hugsað sér að sækja um eru hvattir til að skoða skilyrði umsókna, hvernig umsókn er metin, upphæðir styrkja og umsóknarfresti.

Á heimasíðu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má finna Erasmus+ handbókina. Einnig er hægt að setja sig í samband við starfsfólk Erasmus+ á Íslandi til að fá nánari upplýsingar um þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að geta sótt um styrki í Erasmus+. 

Helstu þrepin í umsóknarferlinu

Þrep 1: Kannaðu möguleikana innan Erasmus+

Menntahluti Erasmus+ styður verkefni í tveimur flokkum. Annars vegar eru veittir styrkir í flokknum Nám og þjálfun og hins vegar í flokknum Samstarfsverkefni. Styrkjum til náms- og þjálfunar sem og til samsstarfsverkefna er skipt í flokka eftir markhópum og skólastigum. Mikilvægt að gera sér grein fyrir því  að tækifærin geta verið ólík á milli markhópa og skólastiga.

Skoða tækifæri í Erasmus+

Skólar (leik-,grunn- og framhaldskólastig)
Starfsmenntun
Háskólastig
Fullorðinsfræðsla
Æskulýðsstarf 

Þrep 2: Lestu handbókina

Lestu Erasmus+ handbókina til að tryggja að þú skiljir reglurnar sem liggja að baki styrkveitingum og hvort verkefnið þitt falli undir kröfur sem gerðar eru um umsóknir í viðkomandi flokk og eftir áherslusviðum.

Þrep 3: Gakktu úr skugga um að stofnunin/lögaðilinn sé með OID númer

Áður en sótt er um styrk í Erasmus+ þarf að skrá stofnunina/lögaðilann inn í organisation registration system til að sækja svokallað OID númer. Til að hægt sé að sækja OID númer þarf fyrst að búa til aðgang inn á vefgátt Framkvæmdastjórnar ESB, EU Login.  EU Login aðgangur er síðan notaður til að skrá sig inn í kerfið þar sem OID númerið er sótt. Athugið að við mælum með því að þessi skráning sé gerð miðlægt í stofnuninni/fyrirtækinu t.d. einhver sem tengist rekstrinum beint. Sá sem skráir OID númer er tengiliður vegna þess og getur þurft að uppfæra upplýsingar um stofnunina/lögaðilann á komandi árum. Athugið að hægt er að búa til EU Login aðgang á netfang sem ekki er skráð á einstakling heldur t.d. á almennt netfang stofnunar/lögaðila. Með því að nota slíkan aðgang er hægt að koma í veg fyrir að aðgangur að skráningu OID glatist við það að einstaklingur hverfi frá störfum við stofnun/fyrirtæki.

Þrep 4: Sæktu um

Umsóknarferlið er algjörlega rafrænt, sem þýðir að þú fyllir út og skilar umsókninni á netinu.

Þrep 5: Kynntu þér matsferli umsókna

Nám og þjálfun og Fundir ungs fólks: Gildar umsóknir eru sendar í mat. Matsmenn fara yfir og meta umsóknir og fer matið fram samkvæmt samræmdu evrópsku punktakerfi. Umsóknum eru gefin stig á kvarðanum 1-100. Til að eiga möguleika á styrk þarf umsóknin að fá a.m.k 60 stig. Auk þess þarf hún að fá að minnsta kosti 50% þeirra stiga sem möguleg eru fyrir hvert viðmið, þ.e. að lágmarki 15 stig fyrir viðmiðið "Mikilvægi verkefnis og tenging við stefnumótun", 20 stig fyrir viðmiðið "Gæði verkefnisins og framkvæmd" og 15 stig fyrir viðmiðið "Áhrif og dreifing niðurstaðna". 

Háskólahlutinn er hér undanskilinn. Umsóknir háskóla um nám og þjálfun í Evrópu eru ekki teknar í gæðamat heldur er fjármagni deilt meðal háskóla í samræmi við eftirspurn og fyrri frammistöðu. Gildar umsóknir um alþjóðavídd í nám og þjálfun á háskólastiginu eru sendar í mat. Matsmenn fara yfir og meta umsóknir og fer matið fram samkvæmt samræmdu evrópsku punktakerfi. Umsóknum eru gefin stig á kvarðanum 1-100 og metið er eftir fjórum viðmiðum. Til að eiga möguleika á styrk þarf umsóknin að fá a.m.k 60 stig. Auk þess þarf hún að fá að minnsta kosti 50% þeirra stiga sem möguleg eru fyrir hvert viðmið, þ.e. að lágmarki 15 stig fyrir viðmiðið "Mikilvægi verkefnis og tenging við stefnumótun", 10 stig fyrir viðmiðið "Gæði verkefnisins og framkvæmd," 15 stig fyrir viðmiðið „Gæði samstarfshóps“ og 10 stig fyrir viðmiðið "Áhrif og dreifing niðurstaðna". 

Samstarfsverkefni: Gildar umsóknir eru sendar í mat. Matsmenn fara yfir og meta hverja umsókn og fer matið fram samkvæmt samræmdu evrópsku punktakerfi. Umsóknum eru gefin stig á kvarðanum 1-100 og metið er eftir fjórum viðmiðum. Til að eiga möguleika á styrk þarf umsóknin að fá a.m.k 60 stig. Auk þess þarf hún að fá að minnsta kosti 50% þeirra stiga sem möguleg eru fyrir hvert viðmið, þ.e. að lágmarki 15 stig fyrir viðmiðið "Mikilvægi verkefnis og tenging við stefnumótun“, 10 stig fyrir viðmiðið "Gæði verkefnisins og framkvæmd," 10 stig fyrir viðmiðið „Gæði samstarfshóps“ og 15 stig fyrir viðmiðið "Áhrif og dreifing niðurstaðna". 

Um alla flokka gildir að í framhaldi af mati fjallar óháð valnefnd um umsóknirnar en forstöðumaður Landskrifstofu Erasmus+ staðfestir úthlutun.

Námskeið fyrir umsækjendur

Á hverju ári stendur starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ fyrir námskeiðum fyrir umsækjendur. Að jafnaði eru haldin nokkur námskeið út á landsbyggðinni sem og í Reykjavík. Þessi námskeið eru auglýst  á vefsíðunni, á samfélagsmiðlum  og einnig eru auglýsingar um námskeið send út á póstlista Rannís.

Skrá mig á póstlista Rannís/Erasmus+
Þetta vefsvæði byggir á Eplica