Ráðgjöf áður en haldið er af stað

Þessi ráðgjöf snýr að þremur mismunandi þáttum: hvatningu, skýrari hugmyndum um það sem bíður í nýju landi og undirbúningi

Ábyrgðarsvið náms- og starfsráðgjafa

Náms- og starfsráðgjafar bera ekki ábyrgð á öllum þáttum undirbúnings skiptináms. Skóli eða önnur stofnun er ábyrg fyrir námsdvölinni og þar er einhver ábyrgur fyrir því að allt gangi eins og smurt.

Þegar einstaklingur fer á eigin vegum ber hann ábyrgð á öllum hlutum, þótt hann geti auðvitað leitað sér aðstoðar fagfólks. Ekki er óalgengt að slíkir einstaklingar biðji  náms- og starfsráðgjafa að aðstoða sig.

Hvatning

Oftast er verksvið náms- og starfsráðgjafa eingöngu það að bregðast við óskum nemenda um að stunda hluta af námi sínu erlendis fremur en að hvetja alla nemendur til þess.

Skýrari hugmyndir

Nemendur biðja oft um aðstoð við að undirbúa sig fyrir nám í útlöndum. Náms- og starfsráðgjafar geta bent á vefsíður með upplýsingum eða vísað þeim á  vefinn Farabara  þar sem finna má hafsjó af upplýsingum.  Náms- og starfsráðgjafinn getur líka verið nemendum til halds og trausts varðandi spurningar eins og „heldurðu að ég ráði við þetta?“ eða „heldurðu að ég hefði gott af þessu?“.

Undirbúningur

Góður undirbúningur er algert grundvallarskilyrði þess að námsmaður fái eitthvað út úr dvöl í öðru landi. Sá undirbúningur er af mörgu tagi, allt frá tungumálaundirbúningi yfir í að ákveða hverju á að pakka niður.

Mikilvægast af öllu er að namendinn búi sig undir að takast á við óvæntar aðstæður. Hann verður að vera viðbúinn því að þurfa að taka í notkun hæfni sem hann vissi ekki að hann byggi yfir og að geta leitað sér aðstoðar hjá sér reyndara fólki á svæðinu.

Tungumálaundirbúningur

 • Almennar upplýsingar um tungumálanám eru á vefnum  Linguanet þar sem finna má margskonar gagnlegt efni. 
 • Á FaraBara er vísað á marga málaskóla í ýmsum löndum heims fyrir þá sem vilja byrja á tungumálanámi áður en þeir fara í það fagnám sem þeir hafa valið sér.
 • Evrópuráðið hefur búið til sérstakan  viðmiðunarramma sem getur verið gott að nota við mat á tungumálakunnáttu. Hægt er að meta mismunandi hæfni í hverju tungumáli fyrir sig, þ.e. hversu mikið fólk skilur, getur talað og getur lesið. 

Menningarundirbúningur

 • Eurodesk inniheldur alls konar upplýsingar á ensku um ferðir innan Evrópu og lífið í hverju landi fyrir sig.
 • Bók Michael Paige: Education for the Intercultural Experience (Intercultural Press, 1993) er lykilverk á þessu sviði. Í bókinni eru margar fræðilegar greinar sem og hagnýt ráð og kenningar, allt skrifað af virtum vísindamönnum á ýmsum sviðum.
 • Á vef Norðurlandaráðs (Info Norden)  eru margvíslegar upplýsingar um lífið á Norðurlöndum, m.a. á íslensku. Þar eð svo margir Íslendingar fara þangað til náms og starfa er full ástæða til að vísa á hann.

Námsundirbúningur

 • Þegar nemendur ætla í stutt skiptinám eða starfsþjálfun erlendis er sérstaklega mikilvægt að góð námsáætlun liggi fyrir áður en haldið er af stað. Aðalatriðið er að skýrt sé nákvæmlega hvaða þekkingu eða hæfni neminn á að tileinka sér og hvernig, hvenær og hver á að leiðbeina honum. Þá þarf að liggja fyrir skýrt fyrirkomulag um mat á náminu í móttökulandinu og hvernig það er metið inn í námið hér heima.
 • Þeir sem ætla sér í fullt nám erlendis verða að sjá um allt skipulagið sjálfir og verður ekki um of brýnt fyrir þeim að þeir verða að afla sér ítarlegra upplýsinga um það út í hvað þeir eru að fara áður en þeir leggja af stað.

Hagnýtur undirbúningur

Sá sem heldur til útlanda í nám eða starf þarf að hafa upplýsingar um eftirfarandi þætti:

 • ferðina sjálfa, bæði flugið út og ferðir með lestum, rútum eða öðrum farartækjum á áfangastað ásamt því að vita hvað gera á bregðist eitthvað á annarri hvorri leiðinni
 • væntanlegt heimilisfang
 • símanúmer einhvers sem hann getur leitað til í landinu
 • heimilisfang skólans eða vinnustaðarins
 • nafn, símanúmer og netfang væntanlegs leiðbeinanda eða kennara
 • upplýsingar um tryggingar (t.d. sjúkdóma-, ferða- og farangurstryggingar) og hvað hann á að gera ef hann þarf á þeim að halda
 • ráðgjöf um hvort nauðsynlegt sé að skrá sig inn í landið eða sækja um dvalarleyfi
 • upplýsingar um hvað gera skal ef neminn veikist eða verður fyrir slysi 
 • yfirlit yfir fjárhaginn bæði til skamms og langs tíma.

Andlegur undirbúningur

Ekki er óalgengt að þeir sem fara á milli landa verði fyrir einhverju menningaráfalli. Náms- og starfsráðgjafar gætu bent ráðþegum á eftirfarandi:

 • algengt er að fólk skipti oft skapi í upphafi dvalar í nýju landi
 • gott er að tala við aðra sem dvalið hafa erlendis, einkum ef unnt er að finna fólk á líkum aldri og af sama kyni og fá að heyra hjá því hvað það gerði þegar heimþráin gerði vart við sig
 • ætli hópur fólks til sama lands á sama tíma væri gott að koma sér upp samskiptaneti innan hópsins og skiptast á símanúmerum og netföngum þannig að hver og einn geti leitað til hinna
 • ekki bíða með að kynnast fólki í nýja landinu, t.d. í gegnum íþróttafélög eða annað tómstundastarf
 • ekki er gott að umgangast fyrst og fremst aðra útlendinga (þar meðtalda Íslendinga) á svæðinu
 • mikilvægt er að borða hollt og gott fæði og að detta ekki bara í skyndibita og gos, sérstaklega þegar fólki líður ekki vel
 • notið tímann við menningarlegan undirbúning til þess að fara líka í gegnum andlegan undirbúning og koma í veg fyrir eða draga úr menningarlegu áfalli.

Bókin the Art of Crossing Culture eftir Craig Shorti (Intercultural Press Inc., 2001) er ein af vinsælustu bókunum um þetta fyrirbæri sem gefin hefur verið út á undanförnum árum. Þetta vefsvæði byggir á Eplica