Tækifæri fyrir íslenskar skólastofnanir

Í Erasmus+ felast mörg tækifæri fyrir íslenskar skólastofnanir sem bjóða upp á hefðbundið bóknám, starfsnám, tækninám, listnám og tónlistarnám á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Hvernig er sótt um?

Áður en sótt er um þarf að ganga úr skugga um að stofnunin/fyrirtækið sem sækir um styrkinn sé með svokallað PIC númer. Til að sækja slíkt númer þarf EU-login aðgang.

Nánari upplýsingar um hvernig sótt  er um í Erasmus+ sem og  ítarlegar leiðbeiningar um EU-login aðgang og PIC númer .

Hverjir geta sótt um?

Einungis lögaðilar, þ.e. sveitarfélög, leik-, grunn- og framhaldsskólar, tónlistarskólar og listnámsskólar sem kenna eftir viðurkenndum námskrám geta sótt um í flokkinn Nám og þjálfun. Hægt er að fletta upp á lista yfir skóla/stofnanir sem sótt geta um til að sjá hvort stofnunin sé gildur umsækjandi. Skólayfirvöld, sveitarfélög og aðrir lögaðilar sem koma að menntun á þessum skólastigum geta sömuleiðis tekið þátt í samstarfsverkefnum. Einstaklingar geta ekki sótt um styrk í Erasmus+.

Dreifstýrð verkefni

Dreifstýrð verkefni eru þau verkefni sem sótt er um beint til Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi. Hægt er hægt að sækja um styrk fyrir tvenns konar verkefni til Landskrifstofunnar á Íslandi. Annars vegar er hægt að sækja um styrk í flokkinn Nám og þjálfun og hins vegar í flokkinn Samstarfsverkefni.

Nám og þjálfun (KA1)

Leik-, grunn- og framhaldsskólar sem og tónlistar- og listnámsskólar  sem kenna eftir viðurkenndum námsskrám geta sótt um ferða-, uppihalds- og námskeiðsstyrki fyrir starfsfólk sitt til að að taka þátt í gestakennslu, fara á námskeið eða í starfskynningu (job shadowing) í 2 til 60 daga daga í einu af þátttökulöndum Erasmus+. Ferðir sem sótt er um skulu vera hluti af faglegri starfsþróun starfsfólks og falla að stefnu skólans um evrópskt samstarf. Með þátttöku fær starfsfólk alþjóðlega starfsreynslu og aflar sér færni og þekkingar sem nýtist til að nútímavæða og auka Evrópuvídd í íslensku skólastarfi.

Samstarfsverkefni (KA2)

Samstarfsverkefni skóla veitir skólum tækifæri til að vinna með öðrum skólum eða samstarfsaðilum í Evrópu og skiptast á reynslu og góðum vinnubrögðum í kennslu. Sömuleiðis gefst tækifæri til að vinna að innleiðingu eða þróun nýjunga í skólastarfi. Samstarfsverkefni þurfa að taka mið af stefnumörkum Evrópusambandsins í menntun og nýta til þess m.a frumkvöðlafærni, tungumálakunnáttu og upplýsingatækni.

Samstarfsverkefni þvert á skólastig

Íslenskir aðilar á háskólastigi, starfsmenntun, leik-, grunn-, og framhaldsskólastigi, fullorðinsfræðslu og í æskulýðsstarfi geta sótt  um styrk til að vinna að ýmsum þverfaglegum verkefnum. Tilgangurinn er að fá  verkefni sem geta haft áhrif þvert á skóla- og menntunarstig. Ekki er hins vegar um sérstaka umsókn að ræða heldur og sótt um um „í nafni“ þess skólastigs sem gæti talist leiðandi í verkefninu eða þess skólastigs sem umsækjandi tilheyrir.

Miðstýrð verkefni

Með miðstýrðum verkefnum er átt við að stofnanir sækja um til „Brussel“ í gegnum Education, Audiovisual and Culture Executive Agency (EACEA)  sem annast umsýslu þessa hluta Erasmus+ fyrir hönd framkvæmdastjórnar ESB. Hér er um að ræða miðstýrð samstarfsverkefni annars vegar og hins vegar stuðning við stefnumótun.

Landskrifstofan veitir upplýsingar og ráðgjöf eftir fremsta megni en öll formleg samskipti vegna þessara verkefna eru við EACEA.

Stuðningur við stefnumótun

Þessi verkefni tengjast stefnumótun í menntamálum og krefjast oft þátttöku stjórnvalda en háskólar og aðrar stofnanir geta einnig tekið þátt og jafnvel leitt verkefni. Ekki er um fasta árlega umsóknarfresti að ræða fyrir skilgreinda tegund verkefna eins og í öðrum hlutum Erasmus+heldur eru auglýstir stakir umsóknarfrestir fyrir sértæk verkefni (þemu).

Frekari upplýsingar um Stuðning við stefnumótun (Support for policy reform)  og opna umsóknarfresti er hægt að nálgast á vef EACEA . 

Stuðningur og samstarf

eTwinning - rafrænt skólasamstarf

Stofnanir á leik-, grunn- og framhaldskólastigi geta tekið þátt í eTwinning. eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni. 

Hver kennari eða skólastarfsmaður getur skráð sig sem þátttakanda í eTwinning og engin takmörk eru á því hve margir frá sama skóla geta verið með. Skráning einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning.

School Education Gateway - vefgátt fyrir skóla- og fræðslustofnanir

Stofnanir geta skráð sig á nýrri vefgátt School Education Gateway þar sem hægt er að finna samstarfsaðila fyrir verkefni í Nám og þjálfun og Samstarfsverkefni . Þeir sem eru skráðir þátttakendur í eTwinning hafa aðgang að þessari vefgátt.

Tengslaráðstefnur

Nokkrum sinnum á ári eru haldnar tengslaráðstefnur víðsvegar um Evrópu. Markmiðið með þeim er að tengja saman samstarfsaðila í Erasmus+ verkefnum út frá ýmsum þemum. Starfsfólk Landskrifstofu veitir upplýsingar um tengslaráðstefnurnar

Beiðni um samstarf

Reglulega berast til Landskrifstofunnar erindi þar sem erlendir aðilar eru að leita eftir samstarfsaðilum á Íslandi. Starfsfólk Landskrifstofu getur veitt upplýsingar um slík erindi, en vinsamlegast athugið að það er án ábyrgðar og er ekki trygging fyrir því að samstarfsaðilinn sé traustur.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica