European Solidarity Corps

Sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni

European Solidarity Corps áætlunin er Evrópuáætlun fyrir ungt fólk sem vill sýna samstöðu á fjölbreyttum vettvangi.  Þetta er allt frá því að hjálpa þeim sem standa höllum fæti yfir í mannúðaraðstoð auk þess að leggja sitt af mörkum til heilbrigðis- og umhverfismála í Evrópu og víðar.  Áætlunin mun skapa tækifæri fyrir að minnsta kosti 270.000 ungmenni í Evrópu.  Unga fólkið getur tekist á við samfélagslegar áskoranir með sjálfboðaliðastörfum og samfélagsverkefnum.  Áætlunin leggur áherslu á inngildingu ásamt því að hvetja til grænni ferðamáta, lýðræðislegrar þátttöku og aukna stafræna færni ungs fólks. 

Hverjir geta sótt um?

Ungt fólk á aldrinum 18-30 ára. Sjálfboðaliðaverkefni geta verið annars vegar í Evrópu og hins vegar innanlands. Hægt er að sækja um styrk til þess að gerast sjálfboðaliði eða búa til samfélagsverkefni. Ungt fólk á aldrinum 18-35 ára getur einnig farið til landa utan Evrópu til þess að sinna mannúðaraðstoð.

Samtök og sveitarfélög geta sótt um að taka á móti eða senda einstaklinga í 2-12 mánuði, einnig er hægt að senda eða taka á móti einstaklingum sem þurfa meiri stuðning í 2 vikur til 2 mánuði.  Hópar geta einnig tekið þátt í 2 vikur til 2 mánuði og þá sem 5-40 manns saman.

Hvernig er sótt um?

  • Fyrir samtök/stofnanir/sveitarfélög

Sótt er um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi European Solidarity Corps. Samtök/stofnanir/sveitarfélög þurfa að hafa Gæðavottun til að geta sótt um. Athugið að leyfilegt er að skrifa umsókn á íslensku.

  • Fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára (18-35 ára fyrir sjálfboðaliðaverkefni sem snúast um mannúðaraðstoð utan Evrópu)

Ungt fólk getur hvenær sem er sótt sjálft um að gerast sjálfboðaliðar á vef Evrópsku Ungmennagáttarinnar.

Sótt er um styrki fyrir samfélagsverkefni í gegnum rafrænt umsóknarkerfi European Solidarity Corps. Þrír umsóknarfrestir eru á hverju ári; yfirleitt í febrúar, maí og október. Hér er má sjá umsóknarfresti ársins.

Hvaða styrki er hægt að sækja um?

European Solidarity Corps veitir styrki í tveimur verkefnaflokkum:

Sjálfboðaliðaverkefni

Sjálfboðaliðaverkefnin geta verið annars vegar í Evrópu og hins vegar innanlands. Samtök og sveitarfélög geta sótt um að taka á móti eða senda sjálfboðaliða.

Samfélagsverkefni

Samfélagsverkefni eru frumkvæðisverkefni sem hafa það að markmiði að bæta nærsamfélagið. Þetta eru fjölbreytt verkefni sem tengjast meðal annars því að aðstoða fólk við að aðlagast samfélaginu, auka lýðræðislega þátttöku, efla umhverfis- og náttúruvernd og fleira.

Hver er ávinningurinn af sjálfboðaliðastörfum?

Fyrir ungt fólk: Auka samfélagslega og borgaralega þátttöku ungs fólks, víkka sjóndeildarhringinn, efla sjálfstraust, auka tungumálakunnáttu, efla persónulega og faglega þróun auk þess að hitta nýtt fólk og eignast nýja vini.

Fyrir samtök: Tækifæri til að vinna með ungu fólki, skiptast á góðum starfsháttum, auka skilning á félagslegum og menningarlegum fjölbreytileika, skapa virkara faglegt umhverfi.

Fyrir samfélög: Aukin geta til að takast á við samfélagsbreytingar, móttækilegri gagnvart fjölbreytni og félagsleg aðlögun í reynd.

Samstaða








Þetta vefsvæði byggir á Eplica