Árlega eTwinning ráðstefnan - Fjölmiðlalæsi og falsfréttir

Helstu áherslur og frásagnir kennara

29.12.2021

Síðastliðinn október tóku þrír kennarar þátt í árlegu eTwinning ráðstefnunni fyrir Íslands hönd, þar sem áherslurnar voru fjölmiðlalæsi og falsfréttir. Sóttu þær áhugaverðar vinnustofur um málefnið, en ráðstefnan var alfarið haldin á netinu í ár.

"Svona ráðstefna er virkilega góð til að kynnast flottu starfi sem fer fram um alla Evrópu, þróa sig áfram í kennslu og læra eitthvað nýtt." – Jónella

Etwinning-annual-confernece

Árlega eTwinning ráðstefnan var haldin dagana 28.-30. október 2021. Íslensku þátttakendurnir í ár voru Jóhann Páll og Miriam frá landskrifstofunni ásamt Kolbrúnu, Jónellu og Heiðu úr Selásskóla og Breiðagerðisskóla. Á árlegu eTwinning ráðstefnunni er litið yfir liðið ár og í þetta sinn voru yfir 500 þátttakendur frá löndum víðs vegar um Evrópu, sem sóttu um 40 vinnustofur. Þema ráðstefnunnar var fjölmiðlalæsi og falsfréttir og var úr mörgum skemmtilegum fyrirlestrum og vinnustofum að velja. Allar þrjár hafa áður unnið með slíkt kennsluefni áður, og vildu bæta við sig þekkingu í þessum málaflokki.

Ráðstefnan fór fram á netinu annað árið í röð og voru íslensku þátttakendurnir sammála um að vel hafi verið staðið að skipulaginu. Dagskráin krafðist ekki margra klukkutíma setu fyrir framan tölvuna og höfðu þau orð á því, sem sátu ráðstefnuna á netinu í fyrra, að tíminn hafi verið nýttur mun betur. Auk fróðlegra fyrirlestra var útbúið stafrænt ráðstefnurými þar sem þátttakendur gátu „gengið“ um og séð aðra þátttakendur, skoðað plaköt og myndbönd á veggjunum, rétt eins og þau væru í sýningarsal á ráðstefnu.

Það er af mörgu að taka þegar á að velja hvað stóð upp úr af ráðstefnu eins og þessari. Farið var yfir ýmsa þætti netnotkunar barna og ungmenna, og við fullorðna fólkið minnt á hversu flókin tilveran á internetinu getur verið fyrir ungt fólk. Mörg börn komast þar í fyrstu kynni sín af peningum og virði hluta og því er mikilvægt að eiga upplýst samtal við börn um fjármál á netinu. Þá var auk þess fjallað um að bæta þyrfti skilning fullorðinna á það virði sem börn setja á aukahluti í tölvuleikjum sem þau hafa jafnvel unnið sér inn yfir lengri tíma.

Gott sé að fræða börn og unglinga um hvað sé að finna á netinu en einnig hvort hægt sé að treysta öllu sem þar er. Það kemur mörgum börnum á óvart hversu auðvelt það er að falsa fréttir og því mikilvægt að kenna gagnrýna hugsun og þekkingu á ólíkum fréttamiðlum. Þá var rætt um gagnsemi þess að nemendur væru sjálfir látnir meta ljósmyndir sem átt hafði verið við, til að geta betur greint á milli falsfrétta og raunverulegra frétta.

"Mér fannst ráðstefnan í heild mjög flott og vel upp sett og ég heillaðist af mörgu og einnig kom margt á óvart. T.d. var athyglisvert þegar bent var á hve auðvelt er að falsa og búa til mynd af [einhverri manneskju] sem er ekki til í raunveruleikanum og að það tekur nánast engan tíma með þeirri tækni sem er til staðar." - Kolbrún

Eitt sem er sérstaklega brýnt fyrir ungu fólki í dag eru falsfréttir um loftslagsmál og á einni vinnustofunni var hvatt til að fá ungt fólk til að setja sig í hlutverk fréttafólks og segja frá staðbundnum umhverfismálum ásamt því að kynna lausnir og rannsóknir sínar í formi frétta, með ljósmyndun og myndbandsgerð. Þá getur verið gott að vekja athygli barna á að neikvæðar fréttir, eða fréttir sem vekja reiði, eru líklegri til að fá athygli og því getur verið auðvelt að móta hugmyndir fólks um ákveðna hópa, sem svo getur bæði ýtt undir fordóma eða öfgahyggju jaðarsettra.

"Það er hagur einhverra að vekja upp efasemdir um áreiðanleika frétta og það er gert með ýmsum leiðum […]. Það þarf að kenna fólki að sækja sér fréttir eftir áreiðanlegum leiðum, t.d. með því að fara beint á fréttamiðlana í stað þess að sækja sér fréttir í gegnum samfélagsmiðla." - Jónella

Þegar fjölmiðlalæsi er kennt er mjög gott að kenna líka þvermenningarlegan skilning og skilning á tilvist jaðarsettra hópa, en algengustu birtingarmyndir hatursorðræðu á netinu eru útlendingaandúð og fordómar gagnvart hinsegin samfélaginu. Vekja þarf athygli á hvernig hatursorðræða á sér ekki stað í tómi á netinu heldur flyst hún yfir af internetinu og út í daglegt líf.

Á ráðstefnunni kom líka fram að mikilvægt sé að koma til móts við nemendur sem trúa falsfréttum eða samsæriskenningum á netinu með skilning og fræðslu, frekar en að reyna að gera lítið úr trú þeirra eða ýta upplýsingunum að þeim. T.d. væri hægt að fá börn til að rannsaka uppruna samsæriskenninga og finna sjálf heimildir til að sjá hvað sé satt og ekki.

"Samstarf okkar fjögurra sem sóttum ráðstefnuna frá Íslandi var ómetanlegt þar sem við miðluðum jafnóðum því besta sem við upplifðum á ráðstefnunni. Það er heilmargt sem maður á eftir að skoða betur." – Heiða 








Þetta vefsvæði byggir á Eplica