Alþjóðleg ráðstefna um vendinám styrkt af Erasmus+

20.3.2015

  • Aaron Sams og Jonathan Bergmann eru forsprakkar venindámsins og verða aðal framsögumenn á ráðstefnunni, auk þess sem þeir munu stýra vendináms vinnubúðunum.

Keilir stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um vendinám þann 14. apríl nk. og vinnubúðum um vendinám þann 15. apríl, ásamt íslenskum og erlendum samstarfsaðilum. Þeir Jonathan Bergmann og Aaron Sams leiða vinnubúðirnar, en þeir eru í hópi helstu sérfræðinga heims í þessari kennsluaðferð.

Ráðstefnan er liður í verkefninu FLIP - Flipped Learning in Praxis, sem fékk tveggja ára styrk frá Erasmus+ menntaáætlun ESB árið 2014. Markmið verkefnisins er að búa til handbækur fyrir kennara sem hafa hug á að innleiða vendinám í kennslu og skólastarfi.

Markmið ráðstefnunnar er að gefa þátttakendum innsýn í hvernig hægt er að innleiða vendinám á mismunandi skólastigum, hvort heldur sem er í stökum áföngum eða í öllu skólastarfinu. Sérstakir gestir ráðstefnunnar verða Jonathan Bergmann og Aaron Sams, forsprakkar vendináms í Bandaríkjunum og höfundar bókarinnar Flip Your Classroom: Reach Every Student in Every Class Every Day.

Að sögn Arnbjörns Ólafssonar verkefnisstjóra FLIP-verkefnisins hefur skráning á ráðstefnuna gengið vonum framar.

Þegar hafa um 250 manns frá 15 löndum skráð sig á ráðstefnuna. Skráning er enn í gangi þannig að við gætum farið upp í 350 manns. Af þessum fjölda eru um 60 erlendir gestir frá jafn mismunandi löndum eins og Taívan, Bandaríkjunum, Póllandi og öllum Norðurlöndunum. Við erum því alveg í skýjunum með þessa þátttöku.

Í kjölfar ráðstefnunnar gefst þátttakendum kostur á að sækja vinnubúðir þar sem þeir geta prófað sig áfram í tæknimálum og kennsluháttum, ásamt því hvernig þeir eiga að undirbúa námsefni og kennslustundir í vendinámi. Nánari upplýsingar hér. Þar munu þeir Jonathan og Aaron fara dýpra í þetta áhugaverða viðfangsefni.  Aðgangur að þessum vinnubúðum er takmarkaður og er nánast fullbókað í þær.

Arnbjörn segir að Erasmus+ styrkurinn hafi gert útslagið að hægt hafi verið að ráðast í þetta verkefni.

 Við hjá Keili erum afskaplega þakklát Erasmus+ áætluninni fyrir þennan stuðning.  Þátttaka í svona alþjóðlegu verkefni skiptir lykilmáli fyrir skólaþróun á landinu. Ég veit ekki hvar við Íslendingar værum ef við hefðum ekki fengið allt þetta fjármagn frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn.


Nánari upplýsingar, dagskrá og skráning

Þetta vefsvæði byggir á Eplica