Fyrsti alþjóðadagur háskólanna og Erasmus+

9.2.2015

Þann 24. nóvember sl., stóð Landskrifstofa Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlunar ESB fyrir samtali um alþjóðavæðingu háskólastigsins, stefnu stjórnvalda og háskóla í alþjóðamálum og þau tækifæri sem Erasmus+ býður upp á til að styðja við og styrkja alþjóðleg tengsl íslenskra háskóla.

Þátttakendur voru fulltrúar frá öllum íslensku háskólunum sem koma að því að móta alþjóðastefnu innan síns skóla, fulltrúar frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og fulltrúar frá íslenskum námsmannasamtökum. Hugmyndin á bakvið Samtalið var tvíþætt: annars vegar að ræða um alþjóðavæðingu háskólastigsins og stefnu stjórnvalda og háskóla í alþjóðamálum og hins vegar þau tækifæri sem Erasmus+, býður upp á, sérstaklega hvað varðar þróun alþjóðavíddar og samstarf við háskóla utan Evrópu. Niðurstöður Samtalsins eru veganesti fyrir stjórnvöld og íslenska háskóla við mótun stefnu um alþjóðavæðingu og Landskrifstofu til að móta stefnumið fyrir framkvæmd alþjóðavíddar í Erasmus+ á Íslandi á næstu árum.

Erasmus+ - ný vídd í samstarfinu

Í upphafi samtalsins voru flutt nokkur erindi um ný tækifæri fyrir íslenska háskóla innan Erasmus+.

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Erasmus+ áætlunarinnar fjallaði um ný tækifæri sem felast innan Erasmus+ áætlunarinnar með samstarfi við aðila innan og utan Evrópu. Framlög til háskólastigsins á Íslandi til samstarfs innan Evrópu verður um 360 milljónir 2015 og til samstarfs utan Evrópu eru framlög til stúdenta- og starfsmannaskipta um 50 milljónir króna á næsta ári. Því til viðbótar geta háskólar sótt um styrki til að byggja upp tvöfaldar námsgráður með samstarfsskólum erlendis (Erasmus Mundus Joint Masters Degrees) og til að styðja við uppbyggingu og þróun háskóla utan Evrópu en sótt er um þá styrki beint til Evrópusambandsins.  Um 2000 milljónir verða til úthlutunar til þess konar verkefna árið 2015.  

Óskar E. Óskarsson og Sigríður Vala Vignisdóttir, verkefnisstjórar í háskólahluta Erasmus+ fóru yfir ný tækifæri og gömul, með nýjum áherslum. Innan Erasmus+ er mikil áhersla lögð á fjölgun stúdenta og starfsfólks í skiptinám og starfsmannaskipti og töluvert viðbótarfjármagn hefur verið sett í þann flokk.  Þannig jókst fjármagn til þessa verkefna milli 2013 og 2014 um tæp 40%. Nú stendur háskólastúdentum til boða í fyrsta sinn að fara í starfsnám innan Evrópu að lokinni útskrift í 2-12 mánuði og starfsnám á meðan á námi stendur þarf einungis að standa í 2 mánuði í stað 3 áður.  Þá eru ný tækifæri fyrir háskóla innan Erasmus+ til samstarfs við evrópska háskóla um  samstarfsverkefni sem miða að þróun eða innleiðingu nýjunga í háskólastarfi, sem og hin svokallaða Alþjóðavídd sem er samstarf við lönd utan þátttökulanda Erasmus+ sem eru 33. Stúdenta- og starfsmannaskipti eru nú möguleg til landa utan Evrópu og hægt er að sækja um samstarfsverkefni með stofnunum utan Evrópu.

Fulltrúi frá Evrópusambandinu, Jacques Kemp hjá Education, Audiovisual and Culture Executive Agency (EACEA) í Brussel, kynnti tækifæri til styrkja til að þróa sameiginlegar námsgráður (Erasmus Mundus Joint Master Degrees) og fjölþjóðleg þróunar- og stuðningsverkefni við háskóla utan Evrópu (Capacity Building Projects)og nýjar áherslur með tilkomu þeirrar viðbótar að nú nær þetta samstarf nánast um allan heim.

Rebecka Herdevall, sem starfar hjá Swedish Council for Higher Education (Universitets- och högskoleradet) sem sinnir öllum innlendum verkefnum á sviði háskóla í Svíþjóð og hýsir sömuleiðis Landskrifstofu Erasmus+ í sama landi fór yfir það hversu góðum árangri sænskar háskólastofnanir hafa náð í alþjóðlegu samstarfi á undanförnum árum, sérstaklega við lönd utan Evrópu, en Svíar hafa lagt mikla vinnu í það starf með tilætluðum árangri. M.a. hafa þeir verið duglegir að halda tengslaráðstefnur þar sem 30-40 aðilum frá sænskum háskólum er boðið í 4-5 daga heimsóknir til tveggja landa í hvert sinn. Markmiðið með þessum ráðstefnum er að auðvelda umsækjendum að stofna til nýs samstarfs. Haustið 2015 er ráðgert að halda tengslaráðstefnu í Kólumbíu og Perú með þátttöku háskóla frá öllum Norðurlöndum.  Nánar verður sagt frá því síðar

Þá komu Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu Alþjóðasamskipta hjá Háskóla Íslands og Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu með stutt innlegg um stefnu Háskóla Íslands og stjórnvalda í alþjóðamálum.

María Kristín Gylfadóttir, sem stýrir Erasmus+ menntaáætlun ESB á Íslandi, stýrði samtalinu.

Hvað er alþjóðavídd?

Í kjölfar erinda áttu þátttakendur með sér samtal um stöðu alþjóðavíddar innan íslensku háskólanna og í stefnu stjórnvalda um háskólastigið.

Samtalið hófst með að þátttakendur voru beðnir um að viðra hugmyndir sínar um alþjóðavídd. Fjölmargar hugmyndir komu fram, m.a. að hún þýddi aukið samstarf á milli skóla, alþjóðlegt starfsumhverfi með alþjóðlegum gæðaviðmiðum og rannsóknarstarfi, aukin tækifæri til kennslu sem bæta hæfni nemenda og gefa möguleika á sameiginlegum námsgráðum. Hún þýddi heildarsamhengi og veitti tækifæri til að ná í fjármagn.

Í framhaldinu ræddu þátttakendur saman í smærri hópum um ávinninginn af alþjóðasamstarfi fyrir háskóla og þá og síðan þær áskoranir sem háskólastofnanir standa frammi fyrir í tengslum við alþjóðasamstarf.

Allir voru sammála um að ávinningur af alþjóðastarfi háskóla væri mikill, bæði fyrir einstaklinga, stofnanir og samfélagið allt. Alþjóðastarf eykur víðsýni, tengslanet stofnana stækka, auknar kröfur verða til um aukin gæði náms og rannsókna, þekking flyst á milli erlendra og  innlendra stofnana sem skapar mikil tækifæri fyrir stúdenta og starfsfólk. Það kallar á nýsköpun og þróun í námi, námsleiðum og rannsóknum. Einnig verður til aukin fjölbreytni í mannauði, samkeppnisstaða stúdenta og starfsfólks batnar og fjölbreytileiki verður til í mörgu tilliti; atvinnulega séð, námslega, samfélagslega og einnig í gæðum. Skilningur eykst á mikilvægi fjölbreytni og því að halda sérstöðu, eða menningarlæsi. Alþjóðlegt samstarf skapar tækifæri fyrir íslenska háskóla til að miðla sinni þekkingarstöðu og á sama tíma læra af öðrum. Þannig er ljóst að alþjóðasamstarf stuðlar að aukinni fagmennsku. Aukið fjármagn í háskólastarfið sem kemur með auknu alþjóðlegu samstarfi og sókn í erlenda samkeppnissjóði hjálpar sömuleiðis við að skapa aukin gæði og breikkar námsval. Að ekki sé minnst á að slíkt samstarf dregur úr fordómum milli þjóða.

Í ljós kom að áskoranirnar reyndust vera margar. Það þykir skorta á stefnu stjórnvalda í um alþjóðavídd í háskólastarfi sem háskólarnir geta tekið mið af við mótun sinna eigin stefnu.  Sömuleiðis kom sterkt fram það sjónarmið að það fælust tækifæri í því að móta sameiginlega stefna allra háskólanna um alþjóðamál. Þá kom fram eindregin ósk um að samstarf háskólanna verði aukið varðandi alþjóðasamstarf. Ýmis mál væri gott að leysa í sameiningu, svo sem samskipti við Útlendingastofnun varðandi dvalar- og atvinnuleyfi, ferli til að gera bakgrunnstékk á erlendu starfsfólki, hvernig koma á til móts við nemendur með sérþarfir og byggja upp stuðningsnet fyrir stúdenta g starfsfólk, bæði þá sem fara erlendis í skiptinám eða starfsmannaskipti og þá sem koma til Íslands til náms og kennslu.

Skortur á tíma og fjármagni til að sinna alþjóðastarfi reyndist einnig vera stór áskorun fyrir háskólana.Þannig bráðvantar vantar fjármagn til framkvæmda - til að anna vinnunni við alþjóðastarf, bæta húsnæðiskost fyrir gistikennara og stúdenta og bæta verkferla til að tryggja gæði í móttöku stúdenta og starfsfólks.. Það fylgir því töluverður kostnaður að taka á móti erlendum stúdentum og jafnvel starfsfólki og litlar stofnanir þurfa að hafa getu og aðstöðu til að getasinnt þeim. Þá skortir umbun vegna aukins álags á starfsfólk stjórnsýslu háskólanna sem sinnir alþjóðastarfi alþjóðastarfs.

Ýmis fyrirstaða við að tryggja gæði náms í alþjóðlegu samhengi þykir sömuleiðis vera fyrir hendi, einkum tungumálalega séð og það þarf að útbúa samræmda tungumálastefnu fyrir alla háskóla. Það þykir t.d. erfitt fyrir íslensku háskólana að bjóða upp á tvítyngd námskeið því ekki allir kennarar eru í stakk búnir til þess að kenna á erlendu tungumáli. Þá þarf að vanda vel val á samstarfsskólum  og byggja upp traust á milli samstarfsstofnana til að laða að fleiri gæðastúdenta og kennara  til landsins.

Í lok dagskrár opnaði Illugi Gunnarsson, Mennta- og menningarmálaráðherra, nýjan vef um tækifæri í háskólanámi erlendis, FaraBara.is.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica