Árangur og framtíð framhaldsfræðslu

5.2.2015

Rannís og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins boðuðu til samtals um árangur og framtíð framhaldsfræðslu undir yfirskriftinni „Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór“ fimmtudaginn 4. desember á Icelandair Reykjavik Hótel Natura.

Samstarfsnetin Euroguidance, Europass og Norrænt tengslanet um fullorðinsfræðslu stóðu saman að viðburðinum. Til samtalsins var  völdum einstaklingum frá öllum skólastigum, fulltrúum stjórnvalda (bæði ráðuneytis menntamála og frá skólaskrifstofum), hagsmunaaðila, atvinnulífs og nemenda boðið. Fundarstjóri var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins.

Opnun

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins bauð gesti velkoma til samtalsins og deildi þeirri ánægjulegu frétt frá Hagstofu Íslands að loks sæist merkjanlegur árangur í baráttunni við að lækka hlutfall landsmanna sem væru aðeins með grunnskólamenntun; hópurinn hefði minnkað úr rúmum 36% árið 2003 í tæp 28% árið 2013.

 

Hugleiðing

Óttarr Proppé alþingismaður hóf fundinn með hugleiðingu um hver væri eiginlega tilgangurinn með því að byggja upp og reka menntakerfi þar sem öllum væri ætlað að finna braut við sitt hæfi. Hann tók sjálfan sig sem dæmi, sagðist hafa fengið vinnu í bókabúð eitt sumarið þegar hann var í framhaldsskóla og það hefði verið svo miklu áhugaverðara og skemmtilegra en skólinn að hann varð „brottfall“ og snéri ekki aftur að hausti. Þótt hann hefði margt lært síðan væri hann ennþá skráður sem „brottfall“, einn af mörgum sem gerir þá tölu svo háa hér á landi. Hann taldi að þörf væri á grundvallarbreytingu í skólakerfinu, rífa ætti píramídakerfið með „kallinum“ á toppnum og búa til í staðinn kerfi þar sem fólk gæti valið sér margvíslegar námsleiðir og þarfir nemenda yrðu eina leiðarljósið.

Pallborð

Ágúst H. Ingþórsson stýrði pallborðsumræðum um hvernig ólíkir aðilar gætu þjónað ólíkum hópum fólks.  Hellen Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti byrjaði á að segja að hún væri líklega „kallinn“ á toppnum þar sem hún hefur nýlega tekið við skrifstofu allra menntamála í ráðuneytinu. En tilganginn með að sameina þau öll á einn stað, sagði hún vera að auðvelda einstaklingum að færa sig á milli ólíkra kassa sem mynda kerfið. Hún sagðist sjá fyrir sér að „landamærin“ hyrfu smám saman og að einstaklingar hættu að lenda í blindgötu. Skúli Helgason er á svipaðan hátt „kallinn“ á toppnum hjá Reykjavíkurborg, sem er með stærsta hóp „viðskiptavina“ hvað varðar menntun. Aðspurður sagðist hann telja að það hefði verið menntun barna mjög til framdráttar að hún var færð frá ríki til sveitarfélaga, þjónustan hefði batnað og allt utanumhald um vellíðan barnanna einnig. Erla Björg Guðmundsdóttir er á hinum enda kerfisins, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjarfjarðar. Hún lagði áherslu á hversu hratt fullorðinsfræðsluaðilar gætu brugðist við sífellt nýjum þörfum atvinnulífsins fyrir menntun með því að leita til færasta fólksins í hverri grein fyrir sig og biðja það að halda námskeið. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir hefur í áratug eða svo menntað náms- og starfsráðgjafa til að hjálpa fólki að finna sína leið innan menntakerfisins. Samkvæmt erlendum rannsóknum sést mælanlegur munur á því fólki sem hefur fengið náms- og starfsráðgjöf hvað varðar hæfni þess og vilja til að ljúka námi og kannski væri mest um vert að ánægjan ykist við að finnast maður vera á réttri leið.

Þrjú örerindi

Arnór Guðmundsson forstöðumaður Námsmatsstofnunar kynnti yfirstandandi vinnu við að búa til Menntamálastofnun sem á að verða formlega til í upphafi næsta árs. Enn er verið að móta stofnunina en ljóst er að henni er ætlað afar mikilvægt hlutverk sem hann hafði dregið saman í setninguna „Menntamálastofnun stuðlar að því að nemendur fái notið framúrskarandi menntunnar með því að styðja við aukin gæði og framfarir í menntamálum og nýtir til þess bestu fáanlegu gögn og þekkingu“.

Ingibjörg Kristleifsdóttir formaður stjórnenda leikskóla fékk það þakkláta hlutverk að kynna ævimenntun út frá sjónarhóli leikskólabarnsins. Barn hefur sitt nám út frá því sem það er og nýtur hvers augnabliks við margvíslega iðju án þess að hafa miklar áhyggjur af framhaldinu. Það óttast ekki að byrja upp á nýtt og breyta sjálfum sér í eitthvað annað, svona eins og Barbapabbi með sinni frægu barbabrellu.

Hrund Gunnsteinsdóttir sýndi fundarmönnum eitthvað sem líktist flóknu og flottu listaverki en var í raun tilraun til að sýna umferð um internetið á einu tilteknu augnabliki. Sá flókni veruleiki sem þar birtist er eitthvað sem allir verða að lifa með, þó engin hafi yfirsýn yfir hann og hann sé síbreytilegur og bjóði upp á mikla möguleika til að afla sér fræðslu.

Opin rými (Open space)

Að loknum þessum fróðlegu erindum var öllum boðið að ræða það sem þeim fannst mest áríðandi við aðra sem það vildu ræða það sama,  í svokölluðu  ,,Opnu rými“ sem María Kristín Gylfadóttir frá Landsskrifstofu Eramus+ og Hróbjartur Árnason, lektor á Kennsluvísindasviði Háskóla Íslands stjórnuðu af mikilli röggsemi. Alls urðu ellefu slík rými  til og umræðurnar voru fjörugar.  Lýstu þátttakendur mikilli ánægju með þetta vinnulag. Opnað hefur verið sérstakt svæði á Wiki fyrir þá sem vilja kynna sér helstu niðurstöður og jafnvel bæta einhverju við. Þeir sem hafa áhuga á því sem þar fer fram eru beðnir að hafa samband við Dóru Stefánsdóttur.

Hér fyrir neðan eru örfáir punktar úr hverju rými:

1.    Aðgengi að námi:

 • Landsbyggðin, ekki bara hægt að treysta eingöngu á fjarbúnað, ákveðin fög ganga vel í fjarnámi en önnur síður,
 • Félagslegi þátturinn sem skiptir máli; hópar koma saman, vinnusmiðjur, tæknin skiptir máli, eldri kynslóðin erfiðari varðandi tölvutækni,
 • Mikilvægt að allir hafa aðgang að náms- og starfsráðgjöf.
 • Erfitt að fá nemendur í fjarnámi til að taka hluta af námi sínu erlendis, ath. Erasmus+ styrki.

2.    Einstaklingsmiðað menntakerfi:

 • Á að vera aðalnámskrá? Þurfum við öll þessi fög – og heimanámið í þeim? Eða eigum við að kenna börnunum að afla sér upplýsinga og tileinka sér efni?
 • Bóknám er stórlega ofmetið í nútíma skólakerfi
 • Það þurfa ekki allir að fara sömu leið að markmiðinu
 • Lífið er ekki línulegt – það er það alls ekki – og fólk þarf alltaf að reyna að komast  á beinu brautina.

3.    Formlegt mat á sjálfsnámi:

 • Þarf að vera liður í raunfærnimati
 • Rafræn ferilmappa
 • Er hægt að láta opna námið sjá sjálft um mat/vottun?

4.    Hugsjónir og skuldbindingar:

 • Nemendur komi í nám á eigin forsendum.
 • Taka þarf niður landamæri/skilrúm milli námsleiða.

5.    Hvernig má efla nýsköpunar og frumkvöðlamenntun?

 • Hluti af kennaranámi
 • Hluti af aðalnámskrá
 • Skapandi hugsun/áhugi/hvati/trú á eigin getu
 • Frumkvæðisverkefni

6.    Mat á menntun innflytjenda:

 • Hvers vegna nýtum við ekki menntun þess fólks sem kemur erlendis frá / innflytjenda?
 • Hvar liggur valdið, hverju þarf að breyta?
 • Það þarf breytt hugarfar og vitundarvakningu

7.    Menntun í fyrirtækjum:

 • Það hlýtur að vera hægt að sameina nám og vinnu. Óskastaðan að alltaf sé nám í vinnu og vinna í námi.
 • Hvað á að ganga langt í mati á því hvað fólk kann og getur
 • Minni fjarvistir, meiri ánægja, ánægja viðskiptavina. Innri hvati, aukið sjálfstraust. Hvati til að gera betur.
 • Það sem þú þarft á að halda í þínu starfi lærir þú 75-80% í starfinu. En 20-25% eru grunnurinn að því að þú getir tileinkað þér þetta.

8.    Samfella í menntakerfinu:

 • Hvernig getum við forðast blindgötur?
 • Hagsmunagæsla iðngreina gagnvart starfsbrautum.
 • Gagnsætt námsmat á bæði formlegu og óformlegu námi.

9.    Skilgreining á starfi náms- og starfsráðgjafa, tengdu nám og/eða atvinnulífi:

 •  Jafningjaráðgjöf – nemendur hjálpa öðrum nemendum undir leiðsögn náms- og starfsráðgjafa.
 • Rannsóknir sýna að náms- og starfsráðgjafar ná árangri en með betra skipulagi er möguleiki á miklu meiri framförum. Fyrst finnum við út hvað við viljum verða, svo lærum við það.
 • Skortur á upplýsingamiðlun, þörf er á auknu upplýsingaflæði.

10.  Valdefling og viðurkenning námsmannsins:

 • Allir eru einstakir og/eða hæfileikaríkir, geta lokið einhverju námi
 • Sveigjanlegt kerfi - við hönnum kerfið - lausnir en ekki blindgötur - sérsmíðum kerfið meðan það virkar ekki.
 • Valdefling - nemandi er ekki viðfang heldur gerandi - efla frumkvæði og sjálfstæði

11. Vinna með málþroska og læsi í anda lærdómssamfélagsins:

Allir voru sammála um að markviss vinna með málþroska og læsi í leik- og grunnskólum væri eitt af mikilvægustu menntaverkefnum nútímans. Einnig var bent á að verkefnið þyrfti ekki síður að vinna í framhaldsskólum. Efla þarf faglegt samstarf leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla gagnvart námi og kennslu enda sýna nýlegar rannsóknir að samfella í námi nemenda í gegnum þessi þrjú skólastig mætti vera mun betri.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica