Tengslaráðstefna á sviði starfsmenntunar um vinnustaðanám og þjálfun

2.12.2014

Erasmus + landskrifstofa menntaáætlunar ESB á Íslandi auglýsir eftir þátttakendum á tengslaráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík 14. – 16. janúar 2015.

Íslenska Erasmus+ landskrifstofan í samstarfi við norsku, sænsku og dönsku landskrifstofurnar stendur fyrir tengslaráðstefnunni sem ber heitið „Workbased Learning in VET“. Reiknað er með 70 þátttakendum frá 20 löndum í Evrópu. 

Tengslaráðstefnur eru haldnar til þess að skólar, fyrirtæki, félagasamtök eða stofnanir geti fundið samstarfsaðila í fyrirhuguð Evrópuverkefni og hafið undirbúning samstarfsins á ráðstefnunni sjálfri. Á tengslaráðstefnunni fræðast þátttakendur um styrkjamöguleika Erasmus+ menntaáætlunarinnar almennt, en sérstök áhersla verður lögð á að þróa nýjar verkefnishugmyndir samstarfsverkefna (KA2) sem og verkefna á sviði náms og þjálfunar (KA1).

Sérstök áhersla er lögð á þátttöku fulltrúa frá:

  • starfsmenntaskólum
  • fyrirtækjum
  • stofnunum og félagasamtökum sem starfa á sviði starfsmenntunar

Íslenskir þáttakendur geta verið sjö, en þó ekki fleiri en einn frá sama skóla/fyrirtæki/stofnun.

Íslenska Erasmus+ landskrifstofan greiðir ráðstefnugjald fyrir íslenska þátttakendur. Fyrir þátttakendur af landsbyggðinni innifelur það hótelgistingu og hægt er að óska eftir stuðningi vegna ferða (allt að 200 evrum). 

Sótt er um á meðfylgjandi rafrænu formi beint til Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi (menntahlutans). 

Sækja umsóknarform

Umsóknarfrestur er til 19. desember 2014.

Í umsókn þarf að skýra frá starfi og reynslu umsækjanda. Einnig skal koma fram rökstuðningur fyrir því af hverju viðkomandi ætti að fá styrkinn og hvort umsækjandi sé með hugmynd að samstarfsverkefni.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica