Frásögn frá tengslaráðstefnu í Rúmeníu

15.9.2015

  • Adda Steina er hér lengst til hægri á myndinni.

Í lok júní sl. sóttu tveir Íslendingar tengslaráðstefnu um leiðir í óformlegu námi í Cluj Napoca í Rúmeníu ásamt 300 öðrum þátttakendum frá um 30 Evrópulöndum.

Þetta voru þær Adda Steina Haraldsdóttir, tómstunda- og forvarnarfulltrúi á Fljótsdalshéraði, og Ásta Mikkaelsdóttir kennari í Álfhólsskóla í Kópavogi. Markmið tengslaráðstefnunnar var að tengja saman fólk sem sinnir fræðslu og menntun í ólíkum löndum, mynda þar tengslanet og læra nýjar aðferðir við óformlegt nám. Adda Steina segir hér frá ferð sinni.

„Viðburðurinn hafði það markmið að tengja saman fólk í mismunandi störfum og frá ólíkum löndum, mynda þar tengslanet og læra nýjar aðferðir við óformlegt nám. Á viðburðinum voru í kringum 300 manns frá rúmlega 30 löndum í Evrópu. Móttökurnar voru góðar, fólkið var æðislegt og upplifunin var ótrúlega gagnleg, lærdómsrík og skemmtileg. Það var einstaklega vel tekið á móti manni og mikið lagt upp úr því að þátttakendum liði vel og kynntust. Það gekk eftir og viðburðurinn varð vettvangur þar sem ég myndaði sambönd við fólk frá mörgum löndum og þau sambönd verða vel varðveitt. 

Fyrsta formlega daginn var svo kölluð ekki-ráðstefna þar sem við förum í Háskólann í Cluj Napoca og hlustuðum á fyrirlestra og fræðslur með óhefðbundnum hætti. Þeir sem töluðu lögðu áherslu á að þátttakendurnir í salnum væru virkir þátttakendur í fræðslunni með samtölum og verkefnum. Þennan dag eftir „ekki-ráðstefnuna“ skiptum við okkur í umræðuhópa. Í boði voru 20 umræðuefni. Ég valdi hópinn „ungir embættismenn“ þar sem sagt var frá Evrópuverkefni sem er í gangi. Í tengslum við þetta verkefni stendur til að finna unga embættismenn frá sem flestum Evrópulöndum til að mynda nokkurs konar Evrópuráð. Í framhaldi af þátttöku minni í hópnum mun ég koma að því að tryggja þátttöku ungmenna á Íslandi sem er mjög áhugavert fyrir mig þar sem ég vinn mikið með ungmennaráðum í mínu starfi.Ráðstefnan sjálf var margar vinnustofur. Áður en við komum til Rúmeníu vorum við búin að velja okkur vinnustofu til að vera í. Ég valdi „Personal Branding“ sem fjallaði mikið um sjálfsmynd, að koma fram, byggja upp ímyndina sína og margt fleira. Þessi vinnustofa gagnaðist mér afskaplega mikið þar sem ég hef sjálf verið með sjálfseflandi hópa fyrir ungt fólk. Þarna lærði ég aðferðir sem munu gagnast mér í slíku starfi sem og öðru. Leiðbeinandinn var mjög fær og margt af henni að læra. 

Hér fagnar minn hópur eftir að hafa haldið líflegan og skemmtilegan fyrirlestur og spurningaleik á Listasafninu í almenningsgarðinum. En allar vinnustofurnar sýndu og kenndu í garðinum svo að gestir og gangandi gátu komið og tekið þátt. Á sama tíma var jasshátíð í garðinum svo nóg var af fólki. 

Það var æðislegt að fá að upplifa og læra af öðrum vinnustofum líka, ég prófaði að leika í skuggaleikhúsi, tromma uppi á sviði með heimatilbúnum hljóðfærum og skemmti mér konunglega að horfa á spuna- og leikhópa á svæðinu. Þegar allar smiðjurnar höfðu sýnt vinnuna sína ígrunduðu allir saman. Við lágum saman í grasinu og sólinni og hlustuðum á róandi tónlist á meðan viðburðarstjórinn fór yfir dagana sem við vorum búin að vera saman og tilfinningarnar, upplifanirnar og lærdóminn sem hafði átt sér stað. Þessa aðferð við ígrundun, sem minnti helst á minningahugleiðslu, hef ég aldrei upplifað áður en hún heillaði mig mikið og ég mun nýta mér hana í starfi mínu seinna meir. Þó að það sé litlar líkur á því að ég geri það í 30 gráðum, logni og sól hérlendis en annað ætti að vera yfirfæranlegt. 

Það er enginn spurning að ég á eftir að nýta mér þær aðferðir og þau sambönd sem ég komst í áfram í minni vinnu með ungu fólki sem og öðrum. Ég var á heildina litið mjög ánægð með ferðina og viðburðinn. Ég hlakka til að nýta mér reynsluna í starfinu en nú þegar hef ég hafist handa við að yfirfæra vinnustofuna í smiðju fyrir unga fólkið „mitt“.“

Adda Steina Haraldsdóttir, tómstunda- og forvarnarfulltrúi Fljótsdalshéraðs.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica