Spurt og svarað um áhrif Brexit á Erasmus+

Ég tek þátt í Erasmus+ og verð við nám eða þjálfun í Bretlandi þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu. Hver er staða mín?

Hvernig sem útgöngu Breta úr sambandinu verður háttað þarftu ekki að hafa áhyggjur. Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020), þar með talið þau skipti sem eru fjármögnuð á árinu 2020. Jafnvel þótt hann yrði ekki samþykktur fyrir útgönguna og Bretar gengju úr ESB án samnings hefur sambandið gefið út yfirlýsingu þess efnis að einstaklingar sem eru í Bretlandi á vegum Erasmus+ þegar útgangan á sér stað fái að ljúka dvöl sinni eins og til stóð. 

Ég er nemandi við íslenskan háskóla og stefni á skiptinám eða starfsþjálfun skólaárið 2020-2021. Get ég sótt um að fara til Bretlands?

Já, þú getur sótt um að fara til Bretlands. Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020), þar með talið þau skipti sem eru fjármögnuð á árinu 2020. Almennar upplýsingar um Erasmus+ stúdentaskipti á háskólastigi má finna á síðu Landskrifstofu en alþjóðaskrifstofa heimaskóla veitir nánari upplýsingar fyrir sína nemendur. Umsóknarfrestir stúdenta eru á tímabilinu janúar-apríl fyrir komandi skólaár en eru breytilegir milli skóla svo það er mikilvægt að þú kynnir þér vel upplýsingarnar frá alþjóðaskrifstofunni þinni.

Ég er kennari eða starfsmaður við íslenskan háskóla og stefni á kennslu eða þjálfun erlendis skólaárið 2020-2021. Get ég sótt um að fara til Bretlands?

Já, þú getur sótt um að fara til Bretlands. Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020), þar með talið þau skipti sem eru fjármögnuð á árinu 2020. Almennar upplýsingar um Erasmus+ kennara- og starfsmannaskipti á háskólastigi má finna á síðu Landskrifstofu en alþjóðaskrifstofa heimaskóla veitir nánari upplýsingar fyrir sitt starfsfólk. Umsóknarfrestir kennara og starfsfólks eru yfirleitt í maí fyrir komandi skólaár en geta verið breytilegir milli skóla svo það er mikilvægt að þú kynnir þér vel upplýsingarnar frá alþjóðaskrifstofunni þinni. 

Ég er umsækjandi um Erasmus+ verkefni um nám og þjálfun og mun skila inn umsókn til íslensku Landskrifstofunnar í febrúar (menntahluti) eða apríl (æskulýðshluti). Getum við sótt um ferðir til Bretlands?

Já, þið getið sótt um að fara til Bretlands og stefnt að því að sinna námi eða þjálfun þar. Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020), þar með talið þau skipti sem eru fjármögnuð á árinu 2020.  

Ég er umsækjandi um Erasmus+ samstarfsverkefni og mun skila inn umsókn til íslensku Landskrifstofunnar fyrir hönd samstarfsaðilanna í mars (menntahluti) eða apríl (æskulýðshluti). Getum ég haft breska stofnun eða samtök með í umsókninni?

Já, þú ættir ekki að hika við að halda bresku stofnuninni áfram inni í umsókninni. Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020), þar með talið þau skipti sem eru fjármögnuð á árinu 2020. Þó er ráðlegt að hafa fjölda samstarfsaðila í umsóknum umfram lágmarksfjölda, því þannig geta verkefnin áfram verið gjaldgeng jafnvel þótt breski þátttakandinn geti hugsanlega ekki tekið þátt lengur. 

Ég er umsækjandi um Erasmus+ samstarfsverkefni og breski samstarfsaðilinn ætlar að skila inn umsókn til sinnar landskrifstofu fyrir hönd okkar. Er það vandamál?

Bresk yfirvöld hafa hvatt til þess að breskar stofnanir haldi sínu striki og sendi inn Erasmus+ umsóknir til bresku landskrifstofunnar. Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020), þar með talið þau skipti sem eru fjármögnuð á árinu 2020. 

Ég er þátttakandi í íslensku Erasmus+ samstarfsverkefni sem hefur hafið göngu sína. Hvað verður um þátttöku bresku stofnunarinnar á aðild að verkefninu okkar?

Breska stofnunin getur áfram tekið fullan þátt í verkefninu eftir að Bretar hafa gengið úr sambandinu, þar sem samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020..

Hefur það einhver áhrif á þátttöku Breta í Erasmus+ ef þeir ganga úr sambandinu með útgöngusamningi?

Nei, ef samningur liggur fyrir um útgöngu Breta úr ESB halda þeir áfram fullri þátttöku í Erasmus+ a.m.k. þar til áætluninni lýkur árið 2020.

Munu Bretar taka þátt í Erasmus+ í framtíðinni?

Samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+ áætlun (2014-2020). Of snemmt er að segja til um hvort og hvernig aðild Breta að næstu Erasmus+ áætlun (2021-2027) verður háttað þar sem Bretar og Evrópusambandið munu þurfa að semja sérstaklega um þetta atriði. Við höldum áfram að birta nýjustu upplýsingar um gang mála á þessari síðu og hvetjum ykkur til að fylgjast með.

Hvernig hefur samstarfinu minni breskra og íslenskra stofnana í Erasmus+ verið háttað?

Íslendingar og Bretar hafa átt í mikilvægu og árangursríku samstarfi á sviði mennta- og æskulýðsmála í áraraðir, sem endurspeglast vel í framkvæmd Erasmus+. Bretland er eftirsóttur áfangastaður fyrir íslenska þátttakendur í Erasmus+ og skipar sér í næstefsta sæti – á eftir Danmörku – yfir þau lönd sem Íslendingar hafa haldið til vegna náms, þjálfunar, kennslu eða sjálfboðastarfa frá árinu 2014. Um 140 manns fara héðan til Bretlands og um 200 breskir nemendur og kennarar koma hingað til lands á ári hverju. 

Hvar get ég nálgast frekari upplýsingar um áhrif Brexit á Ísland?

Utanríkisráðuneytið hefur birt á síðu sinni spurningar og svör um ýmis málefni sem tengjast útgöngu Breta úr ESB. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Landskrifstofa Erasmus+ birta upplýsingar á heimasíðum sínum um þróun mála varðandi þátttöku Bretlands í Erasmus+ þegar þær berast. 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica