Tengslaráðstefna í fullorðinsfræðslu í Finnlandi, 26.-29. nóvember 2019

25.9.2019

Landskrifstofa Erasmus+ menntaáætlunar ESB á Íslandi auglýsir eftir tveimur þátttakendum á tengslaráðstefnuna Social justice in lifelong guidance for adults (Félagslegt jafnræði í ráðgjöf um nám alla ævi fyrir fullorðna nema). Ráðstefnan verður haldin í Levi (Lapplandi), Finnlandi, dagana 26.-29. nóv. nk.

Social-justice

Tengslaráðstefnan er ætluð aðilum sem sinna ráðgjöf í fullorðins-fræðslu, sérstaklega til jaðarhópa eða annarra sem standa höllum fæti í samfélaginu, s.s. minnihlutahópa eða innflytjenda. Fjallað verður um hvernig æskilegt sé að standa að ráðgjöf til þessara hópa. Meðal þeirra spurninga sem leitað verður svara við á ráðstefnunni eru:

  • Þarf að huga að menningarmun?
  • Hvernig er hægt að bregðast við kynþáttafordómum?
  • Eru þeir sem sinna ráðgjöf að ná til þeirra sem þarfnast helst leiðsagnar og aðstoðar?
  • Er þess gætt að ráðgjöf fyrir þessa hópa sé félagslega sanngjörn?

Þátttakendur þurfa ekki að hafa tekið þátt í Erasmus+ verkefnum áður en þurfa þó að vera tilbúnir til að stofna til nýrra samstarfsverkefna sem tengjast þema ráðstefnunnar.

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um nafn, stofnun og stöðu innan stofnunar. Einnig upplýsingar um reynslu umsækjanda, ástæða þess að áhugi spratt á efni ráðstefnunnar og verkefnishugmynd, ef hún er fyrir hendi. Rík áhersla er lögð á myndun Erasmus+ verkefna og að þátttakendur fari sem fulltrúar sinna skóla og séu opnir fyrir að taka þátt í slíkri vinnu.

Ekki þarf að greiða fyrir þátttöku í ráðstefnunni, því gjaldið greiðist af landskrifstofunni í Finnlandi og inniheldur gistinætur á rástefnutíma (þrjár nætur), fæði, efnisgjöld og annað uppihald sem ráðstefnunni tengist. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi veitir að auki styrk fyrir 90% af upphæð ferðakostnaðar, en í því felast allar ferðir til og frá flugvöllum, sem og aukagistinætur sem þátttakendur þurfa hugsanlega að taka vegna fjarlægðar sinnar frá fundarstað, bæði innanlands og utan. Ferðastyrkurinn er greiddur í tvennu lagi, 500 evrur eru greiddar fyrirfram þegar umsækjendur hafa verið valdir og eftirstöðvarnar (upp að 90% alls ferðakostnaðar) þegar heim er komið og uppgjöri hefur verið skilað.

Umsóknarfrestur er til þriðjudagsins 1. október nk. kl. 13:00

SÆKJA UM ÞÁTTTÖKU
Þetta vefsvæði byggir á Eplica