Námskeið í notkun óformlegra kennsluhátta í Dublin, Írlandi, 16.-18. maí 2019

11.4.2019

Landskrifstofa Erasmus+ menntaáætlunar ESB á Íslandi auglýsir eftir tveimur þátttakendum á námskeiðið Professional Development Opportunity for Teachers: Creative methods for facilitating learning II. Námskeiðið verður haldið í Dublin, Írlandi, dagana 16.-18. maí nk.

Markus-spiske-1403572-unsplashNámskeiðið er jafnframt tengslaráðstefna og er sem slíkt
ætlað kennurum eða öðrum fulltrúum á grunn- og framhaldsskólastigi sem áhuga hafa á að þróa færni sína í notkun óformlegra kennsluaðferða og eru tilbúnir til að þróa og stofna til nýrra verkefna á því sviði. Þátttakendur þurfa að hafa reynslu af Erasmus+ verkefnum eða hafa áhuga á að stofna til evrópsks samstarfs.

Námskeiðið er nú haldin í Dublin í annað sinn og er markmið þess það sama; að þróa þekkingu og skilning þátttakenda á notkun óformlegra kennsluaðferða í skólastofunni, s.s. með því að nýta sér leiklist, sköpun, rafræna miðla o.s.frv. í kennslu. Á námskeiðinu munu þátttakendur m.a. kynna sér hvernig unnið er með mismunandi náms- og kennsluaðferðir, hugtakið sjálfstýrt nám (self-directed learning) verður til umfjöllunar o.m.fl.

Nánari upplýsingar (á ensku)

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um nafn, stofnun og stöðu innan stofnunar. Einnig upplýsingar um reynslu umsækjanda og verkefnishugmynd, ef hún er fyrir hendi. Rík áhersla er lögð á myndun Erasmus+ verkefna og að þátttakendur fari sem fulltrúar sinna skóla/stofnana/samtaka og séu opnir fyrir að taka þátt í slíkri vinnu.

Ekki þarf að greiða fyrir þátttöku í ráðstefnunni, því gjaldið greiðist af landskrifstofunni á Írlandi og inniheldur gistinætur á ráðstefnutíma (tvær nætur), fæði, efnisgjöld og annað uppihald sem ráðstefnunni tengist. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi veitir að auki styrk fyrir 90% af upphæð ferðakostnaðar, en í því felast allar ferðir til og frá flugvöllum, sem og aukagistinætur sem þátttakendur þurfa hugsanlega að taka vegna fjarlægðar sinnar frá fundarstað, bæði innanlands og utan. Ferðastyrkurinn er greiddur í tvennu lagi, 500 evrur eru greiddar fyrirfram þegar umsækjendur hafa verið valdir og eftirstöðvarnar (upp að 90%) þegar heim er komið og uppgjöri hefur verið skilað.

Umsóknarfrestur er þriðjudagurinn 16. apríl nk. kl. 12:00.

SÆKJA UM ÞÁTTTÖKU
Þetta vefsvæði byggir á Eplica