Bologna-verkefni um raunfærnimat á háskólastigi

Í apríl 2019 hóf göngu sína verkefnið Recognition of Prior Learning (RPL) in Practice, sem snýst um raunfærnimat til inngöngu í háskóla og til styttingar háskólanáms. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ í sérstökum undirflokki sem ætlaður er stjórnvöldum til stuðnings við að innleiða Bologna-ferlið í löndum samevrópska háskólasvæðisins (EHEA) og er til tveggja ára.

Markmið RPL in Practice er að hjálpa þátttökulöndunum sex við að þróa leiðir við innleiðingu raunfærnimats á háskólastigi, en Ráðherraráð Evrópusambandsins hefur mælst til slíkrar innleiðingar á öllum skólastigum frá árinu 2012. Fyrsta skrefið verður að kortleggja verkferla, aðstæður og þarfir í þátttökulöndunum, sem mun hjálpa til við að þróa aðferðir til raunfærnimats. Aðferðirnar verða prófaðar innan afmarkaðs fjölda deilda í löndunum sex, sem síðar er hægt að víkka út til annarra.

Stjórn verkefnisins er í höndum Swedish Council for Higher Education (UHR) og eru bæði Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannís aðilar að því ásamt eftirfarandi stofnunum og samtökum:

· Swedish Ministry of Education and Research

· Agency for Quality Assurance and Accreditation Austria – AQ Austria

· Austrian Federal Ministry of Education, Science and Research

· Ministry of Science and Education – Króatíu

· Cork Institute of Technology (CIT)

· Quality and Qualifications Ireland (QQI)

· The Irish Universities Association (IUA)

· EURASHE - Belgíu

 Á Íslandi er engin formleg aðferðafræði á háskólastiginu varðandi mat á þekkingu og færni einstaklingsins og því til mikils að vinna að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um þetta efni. Samhliða verkefninu er stefnt að því að endurskoða viðmið um æðri menntun og prófgráður auk þess að vinna að uppfærslu á skírteinisviðauka (Diploma Supplement), nú á stafrænu formi. Tengiliðir Íslands í verkefninu eru þær Una Strand Viðarsdóttir hjá Menntamálaráðuneyti og Rúna Vigdís Guðmarsdóttir hjá Rannís, en auk þeirra eiga sæti í vinnuhópi um verkefnið fulltrúar frá öllum sjö háskólunum á Íslandi.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica