Íslenskir háskólasérfræðingar á tengslaráðstefnu í Haag

12.11.2015

  • Nvao-fundur-i-Haag-II
    Frá vinstri: Sigurður Óli Sigurðsson(Rannís), Rebekka Silvía Ragnarsdóttir (LHÍ), Auðbjörg Björnsdóttir (UNAK), Sonja Dögg Pálsdóttir (MRN), Hallur Jónasson og Anna Elísabet Ólafsdóttir (Bifröst), Guðrún Geirsdóttir og Gísli Fannberg (HÍ).

Dagana 29. - 30. október s.l. tóku 8 sérfræðingar í kennslufræðum frá íslenskum háskólum þátt í tengslaráðstefnu í Haag. Ráðstefnan var á vegum BORE verkefnisins, sem er stýrt af Maríu Kristínu Gylfadóttur hjá Rannís og styrkt af Evrópusambandinu. 

Verkefnið miðar að því að stuðla að framþróun íslensks háskólastarfs.  Aukin þekking á uppbyggingu námsleiða, námsmats og gerð námsskráa er einn þáttur verkefnisins.

Tengslaráðstefnan var haldin á vegum Námsviðurkenningastofnunar Hollands, og var þema ráðstefnunnar innleiðing lærdómsviðmiða á háskólastigi. Var m.a. rætt um tilgang lærdómsviðmiða, mismunandi framsetningu á lærdómsviðmiðum, mat á lærdómsviðmiðum og hvort eðlilegt sé að setja fram lærdómsviðmið um viðhorf nemenda í lok námskeiða. Á mælendaskrá voru margir alþjóðlegir sérfræðingar í gæða- og viðurkenningamálum háskóla. Voru íslensku fulltrúarnir sammála um að ráðstefnan hefði verið sérstaklega gagnleg og að umræður í kjölfar erinda og vinnustofa hafi verið mjög fræðandi.
Dagskrá tengslaráðstefnunnar og samantekt íslensku þátttakendanna.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica