Gæði í háskólastarfi í forgrunni á vel heppnuðu Landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta

27.3.2017

  • Landsþingsgestir ásamt Maríu og Sigurði

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) héldu dagana 17. - 19. mars Landsþing á Akureyri. Á þinginu áttu sæti fulltrúar allra háskóla á Íslandi, rúmlega 50 manns. Yfirskrift Landsþingsins var „Hvers virði er mín menntun? – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna.“

Sérfræðingar hjá Rannís, þau María Kristín Gylfadóttir og Sigurður Óli Sigurðsson hafa síðastliðin tvö ár unnið náið með samtökunum og stutt við uppbyggingu þeirra í tengslum við verkefnið Bologna Reform in Iceland (BORE).  María og Sigurður héldu erindi á þinginu um gæðastarf íslenskra háskóla í evrópsku tilliti og fyrirkomulag eftirlits með gæðastarfi þeirra, og stýrðu vinnustofum og hugarflugi um aðkomu stúdenta að gæðastarfi í íslenskum háskólum.  Í hugarfluginu komu meðal annars fram helstu áskoranir sem fylgja gæðastarfi, s.s. undirfjármögnun háskólakerfisins sem stúdentar telja mikla hindrun í eflingu gæða í háskólunum. Aðrar áskoranir sem þinggestir sammældust um voru skortur á upplýsingum og sýnileika árangurs gæðastarfs og hröð endurnýjun fulltrúa stúdenta ásamt tímaleysi til að taka þátt í gæðastarfi.  Niðurstöður hugarflugsins verða nýttar við mótun stefnu LÍS um gæði í íslensku háskólakerfi.

Í lok þingsins var Aldís Mjöll Geirsdóttir kosinn nýr formaður LÍS og nokkrar breytingar urðu einnig á stjórn samtakanna.  Um leið og við óskum Aldísi og stjórninni velfarnaðar í í áframhaldandi hagsmunagæslu fyrir íslenska stúdenta hlökkum við hjá Rannís til áframhaldandi samstarfs við samtökin.  

Nánari upplýsingar um þingið og nýja stjórn LÍS.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica