Viðbótarstyrkur vegna fötlunar eða heilsufars

Eitt af markmiðum Erasmus+ áætlunarinnar er að tryggja jafnan aðgang og tækifæri þeirra sem vilja taka þátt. Það er meðal annars gert með því að bjóða upp á viðbótarstyrki fyrir stúdenta og starfsfólk háskóla sem með þátttöku myndu mæta aukalegum kostnaði umfram aðra vegna fötlunar eða veikinda.

Fjárhagslegur stuðningur

Styrktur er raunkostnaður í skiptinámi/starfsnámi/starfsþjálfun/kennaraskiptum vegna fötlunar eða heilsufars, til dæmis: 
  • Hækkaður ferða- og/eða uppihaldskostnaður 
  • Ferðakostnaður og uppihald aðstoðarmanneskju
  • Flutningskostnaður á stoðtækjum

Réttindi

Allir Erasmus+ þátttakendur, þar á meðal fatlaðir og veikir, eiga að geta nýtt sér þá stoðþjónustu sem er í boði í þeim háskóla sem tekur á móti þeim. Þeir háskólar sem taka þátt í Erasmus+ hafa fengið vottun og undirritað og samþykkt skilmála í Erasmus Charter for Higher Education (ECHE), þar sem þeir meðal annars skuldbinda sig til að tryggja jafnt aðgengi og tækifæri þátttakenda. 

Aðgengi

Það er mikilvægt að kynna sér vel hvernig aðgengismálum er háttað í þeim háskóla sem þátttakandi hyggst fara til. MappED! er Erasmus+ verkefni sem hefur það að markmiði að veita nemendum með fötlun gagnlegar upplýsingar og hjálpa þeim þannig að taka þátt í Erasmus+. Á forsíðu heimasíðu verkefnisins er hægt að leita að ákveðnum háskólum og fá upplýsingar um aðgengi þeirra.

Hvernig á að sækja um viðbótarstyrkinn?

Fyrst er almenn Erasmus+ umsókn fyllt út og merkt við að viðkomandi óski eftir viðbótarstyrk. Síðan fylla háskóli (alþjóðaskrifstofa) og umsækjandi út eyðublað um viðbótarstyrk í sameiningu og senda til Rannís. Vinsamlegast hafðu samband við alþjóðaskrifstofu skólans þíns til að fá upplýsingar um umsóknarferlið.Þetta vefsvæði byggir á Eplica