Ráðgjöf á meðan á dvöl stendur

Ráðgjöf meðan á dvöl stendur

Í námslandinu eru ýmsir aðilar sem hægt er að leita til, fyrir utan náms- og starfsráðgjafa.

Nemandi í útlandi þarf oft aðstoð náms- og starfsráðgjafa eða annarra í því landi sem hann býr. Oftast leitar hann ekki ráða hjá náms- og starfsráðgjöfum í sínu eigin landi. Þó getur verið að hann lendi í svo alvarlegri krísu að honum finnist hann þurfa að ræða við samlanda sinn sem vit hafi á málum og því getur verið að íslenskur náms- og starfsráðgjafi fái tölvupóst eða símtal með hjálparbeiðni frá nemanda í öðru landi. Við þannig aðstæður er best fyrir íslenska náms- og starfsráðgjafann að vinna í náinni samvinnu við erlend starfssystkini sín við að finna lausn á vandanum. Aðrir aðilar hér á landi þurfa hugsanlega að koma að málum, allt eftir því hver vandinn er.

Í námslandinu eru ýmsir aðilar sem hægt er að leita til, fyrir utan náms- og starfsráðgjafa. Þeir helstu eru:

 • leiðbeinendur á vinnustöðum og/eða í skólum. Yfirleitt er ákveðið fyrir fram í samvinnu skólans sem sendir nemandann og þeirra sem tekur á móti honum hverjir eru leiðbeinendur. Mikilvægt er að nemandinn viti áður en hann leggur í hann hver helsti leiðbeinandi hans verður. 
 • kennarar í skólum bera yfirleitt mesta ábyrgð á því að nemandinn læri það sem lagt var upp með. Kennsluáætlanir eru gerðar í samvinnu þeirra, skólans sem sendir nemandann og jafnvel nemandans sjálfs. Í mörgum fögum eru fylltar út ferilbækur varðandi námið og mikilvægt er að erlendir kennarar skrifi undir og stimpli á réttum stöðum í slíkar bækur.
 • umsjónaraðilar sjá um ýmsan praktískan undirbúning varðandi námsdvölina, svo sem tryggingarmál (stundum þarf að tryggja nemann sérstaklega ef hann vinnur með dýr tæki sem gætu skemmst í höndunum á honum), aðstoð í veikindum eða við slys, bústað, samgöngur og þess háttar. Þessi aðili ber yfirábyrgð á allri námsdvölinni og ber honum að fylgjast með nemandanum allan námstímann. Yfirleitt er það hann sem undirritar námssamninginn þótt leiðbeinendur og kennarar hafi skrifað hann.

Hér skal taka fram að hugsanlegt er að sami aðili sé t.d. bæði kennari og umsjónaraðili.

Undirbúningur fyrir leiðbeinendur

 • í ritinu  Learning by Leaving er stutt yfirlit yfir hlutverk leiðbeinenda (þar kallaðir mentors) í starfsmnámi í Evrópu sem og fræðileg greining á hlutverkinu
 • á vefnum  Tutor-Ring er  að finna leiðbeiningar fyrir leiðbeinendur á vinnustöðum ( þar kallaðir tutors)
 • Leonardo da Vinci heldur úti  vef um vinnustaðaþjálfun í Evrópu. Þar eru leiðbeinendurnir kallaðir supervisors
 • Finnar hafa gefið út handbók fyrir leiðbeinendur á vinnustöðum bæði á sænsku og finnsku.  Hér er krækja í sænsku útgáfuna.
         
  Mjög mikilvægt er að gerðir séu skýrir samningar fyrir fram um hlutverk leiðbeinenda á vinnustöðum. Í honum ætti að koma fram:
 • stutt kynning á vinnustaðnum og því fólki sem þar starfar
 • kynning á starfssviði og ábyrgð nemandans
 • upplýsingar um tengilið sem hægt er að snúa sér til með allar frekari spurningar
 • yfirlit yfir vinnudaginn (mætingartíma, lengd vinnudags, matar- og kaffihlé, gjöld fyrir mat og kaffi, hugsanlegan vinnutíma á kvöldin og um helgar, laun og hvenær þau eru greidd og hvað neminn á að gera veikist hann eða verði fyrir slysi)
 • lýsing á því hvernig námið passar inn í heildarnám nemandans heimafyrir og hvaða pappíra hann fær með sér heim
 • skýrar línur um hvað felst í hlutverki leiðbeinandans, þ.e. hver á að leiðbeina hverjum og hversu mikill hluti vinnudagsins er ætlaður í það hlutverk. Hvað gerist ef leiðbeinandinn veikist eða þarf að fara í burtu? Hvað gerist ef leiðbeinandi og nemandi geta engan veginn unnið saman?
 • leiðbeiningar um hvernig gera á  Europass starfsmenntavegabréfið upplýsingar um þá skýrslu sem gera á í námslok, hvað hún á að innihalda og hver/hverjir eiga að skrifa undir hana.

Undirbúningur fyrir kennara

Gefin hefur verið út sérstök  handbók fyrir starfsmenntakennara erlendra nemenda með styrk frá Leonardo da Vinci verkefninu. Þar eru meðal annars upplýsingar um hvernig hægt er að undirbúa dvölina þannig að nemandinn fái sem mest út úr henni. Bent er á gildi þess að nemendur haldi dagbækur meðan á dvölinni stendur og skrái í þær allar þær hugleiðingar sem upp koma.

Hlutverk kennara getur falist í:

 • kynningu á skólanum/vinnustaðnum
 • aðstoð við að aðlagast því að vera nemi í viðkomandi landi 
 • að sjá um að vel sé tekið á móti nemandanum og fylgst með því að honum líði vel
 • ráðgjöf um við hverju er búist af nemandanum
 • að veita upplýsingar tengilið sem hægt er að snúa sér til með allar spurningar
 • að gera yfirlit yfir alla pappíra sem tengjast náminu, bæði þá sem neminn á að skila og þá sem skólinn eða vinnustaðurinn ber ábyrgð á
 • þátttöku í gerð lokaskýrslu um námsdvölina.

Stundum aðstoða fleiri en einn kennari nemendur, bæði við námið sjálft og almenna vellíðan meðan á því stendur. Þá er gott að skýrt komi fram hver ber ábyrgð á hverju. 

Undirbúningur fyrir umsjónaraðila

Stór hluti af verksviði umsjónaraðila er að vera viðbúinn því að eitthvað óvænt komi upp á. Þetta á sérstaklega við ef nemandinn kemst í aðstæður sem hann ræður ekki við. Sálrænn stuðningur felst einkum í því að vera til staðar þegar nemandinn þarf að tala við einhvern um hvernig honum líður. Stuðningur við að takast á við hversdagslífið getur falist í aðstoð við að finna (annað) húsnæði, ráðgjöf í veikindum eða eftir slys eða að hafa samband við yfirvöld á staðnum

Umsjónaraðilanum ber að halda stuttan kynningarfund með nemanum þegar hann hefur nám sitt eða starfsdvöl. Þar með gefst báðum tækifæri til að kynnast. Þá er gott að hafa fund þegar dvölin er hálfnuð ef hún er það löng að ástæða þykir til. Þegar dvölinni lýkur eru haldnir matsfundir þar sem umsjónaraðilinn er einn þátttakenda. Þar er reynt að setja á blað hvað gefist hefur vel, hverju þarf að breyta og hvað þarf að fella niður. Allt í því augnamiði að bjóða upp á betri dvöl í framtíðinni.  

T-kit on International Voluntary Service - Conflict managent er gefið út af evrópsku ungmennaáætluninni. Hér er vísað í síður sem fjalla sérstaklega um hvernig á að bregðast við þegar  einhvers konar árekstrar verða eða við  krísum af ýmsu tagi.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica