Háskóla­nemar kalla eftir stefnumótun frá stjórnvöldum

6.4.2016

  • Nanna Elísa Jakobsdóttir, formaður LÍS, afhenti Ástu Magnúsdóttur, ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, stefnu LÍS í alþjóðavæðingu.

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa afhent mennta- og menningar­málaráðuneyti og háskólum landsins stefnu um alþjóðavæðingu íslensks háskóla­samfélags. Afhendingin fór fram á Alþjóðadegi háskólanna sem haldinn var í samstarfi við Rannís þann 18. mars undir yfirskriftinni Stúdentar og alþjóðastarf - hindranir og hæfni.

 Með stefnu sinni kalla háskólanemar eftir nauðsynlegri stefnumótun frá stjórnvöldum og háskólastofnunum þegar kemur að alþjóðavæðingu. Þá kalla háskólanemar eftir því að safnað verði gögnum um bakgrunn þeirra erlendu nema og innflytjenda sem stunda nám í háskólum á Íslandi.

Markmið stúdenta er að 40 prósent útskrifaðra hafi hlotið menntun sína að öllu eða einhverju leyti erlendis.

Nanna Elísa Jakobsdóttir, formaður LÍS, afhenti Ástu Magnúsdóttur, ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, stefnu LÍS í alþjóðavæðingu og sagði af því tilefni:

Alþjóðavæðing er drifkraftur frjáls flæðis þekkingar í heiminum. Hana má finna alls staðar í íslenska háskólakerfinu, sama hvort um ræðir; námsefni, kennsluhætti, aðferðafræði, hugmyndir eða orðræðu. Alþjóðavæðing miðar að því að færa þekkingu, gagnrýna hugsun og skilning námsmanna á hærra stig, bæði hvað varðar hæfni þeirra sem fræðimanna og persónulega stöðu þeirra innan alþjóðasamfélagsins. Því einangraðra sem menntakerfi er frá umheiminum því verr standa námsmenn í tungumálum, menningarlæsi, og skilningi á hugsunarhætti og hugmyndum fólks með ólíkan bakgrunn.

Landssamtök íslenskra stúdenta voru stofnuð í nóvember árið 2013 en með samtökunum voru háskólanemar í fyrsta sinn sameinaðir undir einum hatti. Samtökin hafa eflst mikið á síðastliðnu ári og eru þegar farin að leggja sitt að mörkum þegar kemur að nauðsynlegum úrbótum á menntakerfinu hér á landi.

Nánari upplýsingar um LÍS: www.haskolanemar.is









Þetta vefsvæði byggir á Eplica